7.1.2007 | 01:19
Tilfinningalegt svigrúm handa frægum
Mikið væri nú gott ef fræga fólkið fengi tilfinningalegt svigrúm í fjölmiðlum. Ef hreinlega engin myndi sýna neinu sem þeir væru að gera neina athygli, þeir þyrftu jú listrænt svigrúm... Slíkt myndi væntanlega ríða þessum aðilum að fullu.
Hið merkilega er að frægt fólk þrífst á athygli. Paul McCartney og Heather Mills væru væntanlega löngu búin að láta sökkva blöðum á borð við The Sun, Daily Mail og Mirror í skaðabótamálum miðað við þá umfjöllun sem skilnaður þeirra hefur fengið á undangengnum mánuðum. Þau vita hins vegar sem er, Paul sem listamaður og Heather sem talskona margvíslegra góðgerðarstarfsemi, að starf þeirra byggist einmitt á stórum hluta á athygli. Ef hjónakornin þyldu ekki kastljós fjölmiðla væru hvorki Paul né Heather það sem þau væru í dag. Stjórnmálamaður sem þyldi ekki að sífellt væri verið að ráðast á skoðanir hans og jafnvel persónu myndi fljótt hrökklast úr starfi. Þetta fylgir einfaldlega starfinu þótt auðvitað sé hægt að komast hjá slíkum árásum með klækindum. Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, sagði mjög eftirminnilega að sér fyndist hálf asnalegt þegar aðrir í hans geira byðu fjölmiðlum heim til sín og seldu sig eins og markaðsvöru. Sérstaklega rétt fyrir kosningar.
Magni Ásgeirsson og Eyrún Haraldsdóttir tilkynntu nýlega í sameiginlegri fréttatilkynningu að þau hefðu ákveðið að slíta samvistir. Þegar fræga fólkið hættir saman þá hafa engin fordæmi verið fyrir því að senda frá sér fréttatilkynningu á Íslandi, nema kannski Ólafur og Dorrit en látum það liggja á milli hluta.
"Já, þetta er búið en ég vil ekki tjá mig neitt frekar um málið við fjölmiðla," hafa venjulega verið viðbrögð þeirra sem hafa verið fastagestir á síðum blaðanna, með munninn fullan af ást sem síðan sprakk. Sagan segir að parið hafi fengið þraulreyndan fjölmiðlafulltrúa til að semja fréttatilkynninguna með sér. Þessi viðbrögð sýna ef til vill best hversu vel meðvitaður Magni er um hvað athygli getur komið mönnum í hæstu hæðir. Ekki þarf annað en að skoða feril söngvarans fyrir ári síðan þegar fjölmiðlar kepptust um að gera grín að tónsmíðum hans og hljómsveitarinnar Á móti Sól.
Magni varð hins vegar súper-stjarna á örskammri stundu með þátttöku sinni í Rock Star: Supernova og gerðist svo djarfur að draga fjölskylduna sína inní málið. Lýsti því ósjaldan yfir hversu sár söknuðurinn væri og hvað það væri erfitt að vera fjarri konu og nýfæddu barni. Svo langt gekk þessi fjölskyldudýrkun á Magna að stórfyrirtæki landsins sameinuðust um að bjóða unnustu hans og syni til Los Angeles þannig að hún gæti fylgst stolt með sínum manni. Þjóðin tók miklu ástfóstri við þessa dökkhærðu sveitastelpu sem beið þolinmóð heima með afkvæminu eftir manni sínum. Minnti á hinar vestfirsku konur til forna sem töldu það ekki eftir sér að sjá á eftir manni sínum í baráttuna við Ægi og Kára. Vafalaust hefði þjóðin ekki fylgt sér jafnmikið að baki Magna ef hann hefði verið rótlaus maður eða jafnvel skíthæll sem slægi sér upp með konu í hverri höfn. Nei, Magni var fjölskyldufaðir og rokkari. Og nú skyldi engin gera lítið úr þessari markaðsetningu, ef svo má að orði komast. Magni hefur vafalítið ekki vitað að þessi yrðu örlög skötuhjúanna.
Með þátttöku sinni, með þessari ástríðu gagnvart því að vilja gera músík og hafa lifibrauð af því afsalaði Magni sér hins vegar á einhvern hátt rétt til einkalífs. Nema að hann hefði sleppt því að draga konuna og son sinn inní málið. Samband þeirra varð á einhvern hátt almannaeign að erlendri fyrirmynd. Svona á sér í raun engin fordæmi í íslensku samfélagi.
Ekki þarf annað en að horfa til Bandaríkjanna eða Bretlands. Sum pör eru einfaldlega meira í fréttum en önnur. Ekki vegna þess að þau séu eitthvað frægari en önnur, einfaldlega vegna þess að frægð þeirra og frami byggist á sambandinu. Nick Lachey og Jessica Simpson, Victoria og David Beckham og meira að segja popp-prinsessan Britney Spears lét tilleiðast að leyfa gerð raunveruleikaþáttar um hjónaband sitt við K-Fed. Og þar með sannast hið fornkveðna- ekki er bæði hægt að halda og sleppa. Ef þú villt að ástin sé fréttaefni þá verður ástarsorgin það líka, hvort sem þér líkar það betur eða verr.
Fjölmiðlar verða hins vegar alltaf að gæta fyllstu varúðar og forðast allar getgátur í þessum málum. Skrifa einfaldlega fréttir af málinu sem eru bæði réttar og sannar hverju sinni.
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.