Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Stingskata með samviskubit

Stingskata stakk áttræðan mann í Bandaríkjunum eins og sjá má á þessari frétt mbl.is. Mundos veltir því fyrir sér hvort morðæði sé þarna runnið á þessa fiska eða hvort þarna hafi verið meintur morðingi Steve Irwin á ferðinni  með massíft samviskubit.

Samsæriskenning af bestu gerð

norwayWhalingÍslendingar eru byrjaðir að veiða hval og mælist það misvel fyrir. Úlfar Eysteinsson er auðvitað hress enda hefur hann matreitt frosinn hval á Þremur frökkum svo lengi sem elstu menn muna. Nú stefnir hins vegar í að Úlfar og aðrir matreiðslumeistarar geti boðið uppá ný - skotna skepnu.

Samsæriskenningasmiðurinn Mundos komst á mikið flug í kvöld. Þegar Valgerður Sverrisdóttir sagði Bandaríkjamenn vera hálfgerða hræsnara með því að lýsa því yfir að við mættum ekki veiða hval en þeir mættu það kviknaði eilítið ljós í skammdeginu. Síðan hvenær hafa Íslendingar ekki bugtað sig og beygt fyrir Ameríkananum.

Af hverju eru Íslendingar allt í einu orðnir hvalveiðiþjóð svona skömmu eftir að her stórveldsins í vestri er farinn? Getur verið að þetta hafi verið einn af skilmálunum í varnarsamninginum að við myndum ekki veiða hval svo lengi sem herinn fengi að hafa aðsetur hér. Svo þegar ljóst var að herinn myndi fara hófu Íslendingar hvalveiðar í tilraunaskyni og þegar herinn loksins var farinn og skildi Íslendinga eftir með skítabragð í munninum hafi Íslendingar sagt hingað og ekki lengra, þessir kanar gætu bara farið til fjandans og nú skyldum við byrja að skjóta Keikó og félaga og græða smá pening með.

 


Macca og Mucca

Breska slúðurpressan fer nú mikinn í umfjöllun sinni um skilnað Macca og Mucca, sir Paul imagebd2c99be-0e4f-41e8-a3a5-085598e74ca8McCartney og Lady Heather Mills. Í fyrstu var talið að skilnaðurinn færi fram í kyrrþey en að undanförnu hafa birst fréttir af því að fyrirsætan hafi eingöngu verið á höttunum eftir auðævum Macca og jafnvel fætt honum barn til að gera blekkingarleikinn enn raunverulegri. Sitt sýnist auðvitað hverjum í þessu máli. News of the World var fyrst til að bregða upp einhverri mynd af fortíð Mills sem virðist hafa verið ansi skrautleg. Fyrst var hún sögð klámfyrirsæta og svo birti blaðið fréttir af því að Mills hefði selt sig handa ríkum olíufurstum og vopnasölum

Nú hefur því verið lekið út að Heather Mills ætli sér að byggja málsókn sína eftir peningum og skaðabótum með að halda því fram að sir Paul hafi neytt ólöglegra vímuefna, drukkið ótæpilega og ekki síst, lamið hana og svívirt.

Samkvæmt The Sun er Heather alveg grunlaus um hvaðan þessi leki kemur en hefur eftir nánum vini Paul að enginn annar hafi getað komið þessu til fjölmiðla og að þessi "tík" vilji eyðileggja mannorð sir Paul. Upplýsingafulltrúi fyrirsætunnar segir þetta alrangt, bendir á að Heather hafi verið veik vegna smávægilegrar aðgerðar sem hún hafi farið í. The Sun kallar þetta samúðar - trompið.

The Mirror telur ástæðuna fyrst og fremst liggja í því að sir Paul hafi ætlað að fara fram á fullt forræði yfir dóttur þeirra Bea. Almennatengslafulltrúinn Max Walker segir meðal annars að þetta sé augljóst herbragð lögfræðinga Mills til að fá enn meira fyrir sinn snúð. "Þetta setur þrýsting á Paul að lægja öldurnar og borga Mills meira en hann hafði kannski gert ráð fyrir."

The Daily Mail var fyrsta blaðið sem komst yfir skilnaðarskjölin og segir að þetta  kunni að kosta Mills yfir sjötíu milljónir punda.  James Stewart, sérfræðingur í breskum fjölskyldumálum, segir í samtali við blaðið að þessi leki eigi ekki eftir að gagnast Mills. "Þetta á eingöngu eftir að bitna á þeirri sem síst skyldi, dóttur þeirra," hefur blaðið eftir Stewart.

A060606_P20_HE_VLjóst er að málið á eftir að vekja mikla athygli sem er í andstæðu við það sem hjónin fyrrverandi vildu þegar þeir gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um skilnaðinn. Samkvæmt bresku pressunni er líklegt að Mills hafi hringt í Paul og sagt honum að greiða ákveðna upphæð. "Annars rústa ég mannorði þínu," á Mills að hafa sagt. Taka skal þessi orð með ákveðnum fyrirvara enda á breska pressan það til að skjóta vel yfir markið en ljóst þykir að hvernig sem niðurstaðan verður hefur mannorð Paul McCartney vissulega beðið hnekki....hvort sem málsatvik séu rétt eða ekki.


Hvernig ætlar RÚV að redda þessu?

Samkvæmt þessari bloggsíðu hefur RÚV náð að klófesta næstu evrópukeppni í knattspyrnu sem haldin verður árið 2008 í Sviss og Austurríki. Vissulega er þessi biti ákaflega góður en reynist vafalítið menningarvitum og anti - sportistum erfiður í meltingu.

Erfitt er að sjá hvernig RÚV ætlar að bjóða áhorfendum sínum uppá sömu þjónustu og Sýn gerði í sumar þegar HM var haldin í Þýskalandi. RÚV verður því væntanlega að hnika til í dagskrá sinni þær vikur sem keppnin fer fram, þeir sem engan áhuga hafa á fullorðnum karlmönnum að elta leðurtuðru í níutíu mínútur verða að finna sér eitthvað allt annað að gera...ekki er dagskráin á Stöð 2 eða Skjá einum það merkileg að þeir finni sér hugarró yfir því efni.

RÚV hefur þar að auki eingöngu sýningarrétt á landsleikjum Íslands sem spilaðir eru hér heima þannig að þeir íþróttaþulir sem fyrir eru standa lýsendum Sýnar og Skjá eins langt að baki.  Þýska deildin er á bak og burt, spænska og meistaradeildin eru á Sýn og ítalski og enski hjá Skjá einum.

RÚV skrifaði nýlega undir samning þess efnis að ef frumvarp um að hlutfélagavæða fyrirtækið gengi í gegn myndi það eyða mun hærri fjárhæðum í íslenskt dagskrárefni. Nú hafa í kringum hundrað milljónir verið eyrnamerktar knattspyrnu.

Engu að síður verður að horfa til þess að ef RÚV á að standa á eigin fótum verða þeir að sjálfsögðu að lokka til sín áhorfendur og auglýsendur.

Páll Magnússon, núverandi sjónvarpsstjóri, virðist hafa gert sér einhverjar hugmyndir um hvað gangi ofan í landsmenn því ekki má gleyma því að hann var einn þeirra sem setti á fót Sýn, sérstaka íþróttarstöð, svo að dagskrá Stöðvar 2 myndi ekki raskast um of. Nú verður hreinlega forvitnilegt hvort sami háttur verður hafður á, að ekki verði þess langt að bíða að Samúel Örn og félagar fái sína eigin stöð og að menningarvitar og antisportistar þurfi hreinlega engu að kvíða.

 


Loksins sigur

Liverpool gerði góða ferð til vínhéraðsins Bordeaux og hafði eitt núll sigur með marki Peter "litla" Crouch. Liðið frá Bítlaborginni var mun sterkari aðilinn í öllum leiknum eða allt þar til síðustu mínútur leiksins þegar Frakkarnir gerðu harða hríð að marki Jose Reina og félaga. Sami Hypia og Jamie Carragher stóðu hins vegar vaktina vel og gerðu engin mistök.  

Og nú erum við farnir að veiða hval

Hvalurinn má heldur betur fara að vara sig því nú erum við Íslendingar farnir að veiða hann. Heimspressan fjallar um málið og má lesa um þessa ákvörðunartöku sjávarútvegsráðherrans hér.

Þetta útilokar það enn frekar að rokkhljómsveitin U2 komi hingað til lands því að írsku mannréttindafrömuðurnir vilja líka vernda þessi fallegu spendýr hafsins.


Siðfræðipistill byltingarleiðtogans

Mundos þreytist seint á því að hamra á fjölskyldugildunum. Þar sem byltingaleiðtoginn er alinn uppí kristnu samfélagi verða tilvísanir í þá ágætu trú örugglega þó nokkrar. Væri Mundos múslimi, hindúi eða gyðingur gæti byltingaleiðtoginn vafalítið skrifað sama pistil með öðrum tilvísunum.

Þeir sem festa það niður á blað sem "meintar" frelsishetjur sögðu og skrifuðu í sandinn gerðu sér snemma grein fyrir mikilvægi fjölskyldunnar. Þeir hömpuðu feðrum og mæðrum í hverju sem þeir skrifuðu og meðal þess fyrsta sem Guð brýndi fyrir Móse var að heiðra föður og móður.

Mundos gerir sér fyllilega grein fyrir því að á þeim tíma sem Móse leiddi þjóð sína til fyrirheitna landsins var réttindastaða kvenna ekki uppá marga fiska og fengu ef til vill nokkra kinnhesta fyrir litlar sakir.

Konur standa hins vegar mun betur í því vestræna samfélagi sem við lifum í. Engu að síður virðist sem svo að hjónabandið eigi undir högg að sækja. Mundos heldur því fram blákalt að hér sé um einn afar einfaldan hlut og það er þverrandi siðferðisstyrkur Evrópubúa.

Framhjáhald að mati Mundos er einhver viðurstyggilegasti hlutur sem nokkur manneskja getur gert þeirri manneskju sem hún elskar. Sífellt fleiri tilfelli framhjáhalds má að mörgu leyti rekja til skorts á siðferðisstyrk, viljanum til að hafna þeim freistingum sem verða á vegi mannsins allt hans lífs.

Í Biblíunni er að finna nokkur velvalin viðvörunarorð gagnvart freistingum. "Ef vinstra augað tælir þig til falls rífðu það út," en Mundos hefur ekkert við eineygða byltingamenn að gera. Hins vegar segir þessa setning meira en mörg orð. Í einu boðorðanna sem Móse fékk var mönnum bannað að girnast konu náunga síns.

Svo virðist hins vegar sem syndin hafi náð einhverjum heljartökum á vestrænu þjóðfélagi.

Fjörtíu prósent hjónabanda enda með skilnaði á Íslandi og vafalítið er landið í meðalagi í heimsálfunni. Flest þessara hamingjusömu hjóna ljúka hveitibrauðsdögunum með einhverjum tímabundnum losta utan veggja hjónaherbergisins.  Ef einhverjir vilja verða meðlimir í byltingaflokki Mundos verða buxurnar að vera fyrir ofan mitti fyrir alla aðra en spússu þeirra.


Og hvað skyldi þjóðin segja við því?

Siðferðiskennd þjóðanna endurspeglast oftast hvað best í viðbrögðum hennar við skandölum ráðamanna og öðru sem berst uppá yfirborðið og tengist æðstu mönnum.

Bretar og Bandaríkjamenn eru til að mynda mjög uppteknir af öllu sem tengist kynlífi en á ólíkan hátt þó. Kynlífshneyksli eru litin mjög neikvæðum augum í Bandaríkjunum og þekkt er þegar sjálfur Bandaríkjaforseti þurfti að sitja dögum saman fyrir framan rannsóknarnefnd vegna framhjáhalds síns með Monicu Lewinsky.

Bretar elska á hinn boginn að koma sínum ráðamönnum í klípu með allskyns frásagnir af kynlífshegðun þeirra og má líkja þeirri umfjöllun við ráðabrugg prakkarahóps. Þeir þola hins vegar ekki ósannsögli og geta vart á heilum sér tekið ef einhver ráðherra eða jafnvel einhver sem tengist ráðherranum á formlegan hátt lýgur. Þá þarf allt stóðið að taka sínar föggur og fara.

Íslendingar eru hins vegar alveg sér á parti hvað þetta varðar og virðast ekki einu sinni horfa til nágrannalanda sinna í austri til að verða sér úti um siðferðislegan þroska. Nýverið þurftu tveir ráðherrar að segja af sér störfum, annar vegna þess að hann borgaði ekki réttu skattanna og hin greiddi ekki afnotagjöldin af Ríkissjónvarpinu þar í landi. Hér heima geta menn hins vegar verið giftir olíufurstum sem hafa níðst á landsmönnum um áraraðir, hlerað síma og svona mætti lengi telja, allt þangað til að þeir hygla frænda sínum og koma honum í fremstu röð á klunnalegan hátt.

Íslenska þjóðin hefur ekki mikla trú á því að þeir sem eru kosnir inná þing á fjögurra ára fresti stjórni einhverju. Þess vegna skiptir voðalega litlu máli hvað þessir gaurar eru að bauka utan vinnutíma síns og hvort þeir ljúgi, steli eða svíki. Þetta eru hvorteð er smápeð sem engu ráða. Nú er meira að segja dæmdur þjófur á leiðinni inná þing. Og hann stal og stal og lét það sig engu varða þótt hann lygi að þjóðinni í beinni útsendingu á gömlu Gufunni.  Þingmaðurinn fór í steininn, tók út sína refsingu og sest væntanlega í sinn gamla þingstól þegar vora tekur á næsta ári. Þjóðin þegir þunnu hljóði, mumlar eitthvað á rauðu ljósi og heldur síðan áfram sínu lífi. Spyr sig jafnvel. "Og hvaða máli skiptir einn þingmaður, þeir ráða hvort eð er engu?"

Ekki veit Mundos hvaðan þessi ríka hefð kemur. Kannski eru þetta leifar af því þegar Alþingi var og hét á Þingvöllum þar sem litli maðurinn var bara til skrauts en höfðingjarnir stjórnuðu öllu - ekki þó á bakvið tjöldin heldur inní þeim.

Nú þegar stóra hlerunarmálið virðist vera að komast í hámæli heyrist ekki bofs frá þessari eyjaþjóð. Henni er víst alveg sama þótt hlustað hafi verið á utanríkisráðherrann í leyni. "Hann gat varla verið að segja eitthvað merkilegt, fyrst  landslagið á Íslandi hefur ekkert breyst að ráði," sagði gamall maður í heitu pottunum vestur í bæ. Nei, sem betur fer stjórnaði Sjálfstæðisflokkurinn þegar herinn fór, utanríkisráðherrann var í góðum samskiptum við hina leynilegu þjónustu sem slökkti á öllum upptökubúnaði þegar vinur bláu handarinnar settist í stólinn og tók upp tólinn. ( símann, þ.e.a.s)


Byltingamaður fer á kostum

Vignir Svavarsson, dyggur stuðningsmaður Byltingarinnar, fór mikinn með liði sínu Skjern og skoraði hvorki meira né minna en níu mörk gegn Ringsted. Um þetta má lesa hér.

Ekki gekk hins vegar jafn vel hjá liði Mundos í ensku úrvalsdeildinni en þar gerði Liverpool jafntefli við Blackburn á Anfield. Vafalítið er farið að hitna aðeins undir hjá Rafa Benitez enda hefur liðið frá Bítlaborginni engan veginn staðið undir þeim væntingum sem til þess hefur verið gert. Benitez hefur lofað öllu fögru, fengið til sín Dirk Kyut, Craig Bellamy, Jermaine Pennant og Mark Gonzales auk Gabriel Palletta og Fabio Aurelio. Liðið hefur ekki komist á neitt skrið og má það að einhverju leyti skrifa á þessar eilífu hræringar hjá liðinu en síðast þegar sama liðið spilaði tvo leiki var á því herrans ári 2005 í október.

Púlarar og Kop - arar eru orðnir langeygir eftir enska meistaratitlinum og þótt Benitez hafi nú þegar landað Evrópumeistaratitli og Bikarnum verður að segjast eins og er að ansi langt er þangað til að Liverpool fer að stríða stóru liðunum af einhverri alvöru....

Reyndar er enska úrvalsdeildin að hruni kominn. Roman - byltingin hefur eyðilagt þessa skemmtilegustu deild í heimi og fjöldi "frægra" leikmanna hafa gert það að verkum að leikaraskapur hefur aukist til muna og stemningin er í engu samræmi við það sem þekkist meðal enskra. Ágætis dæmi um óstyrkar stoðir ensku úrvarlsdeildarinnar væri enska landsliðið.

Engar af stórstjörnum liðsins hafa náð sér almennilega á strik og hið sama gildir um spænska landsliðið. Menn hafa velt vöngum yfir þessu en ástæðan er einföld að mati Mundos. Hann horfir bara á leikmann Rauðu Djöflanna, Ole Gunnar Solskjær, sem leikur eins og sannur knattspyrnumaður. Hann er þakklátur fyrir að leika og fótbolta og leikgleðin skín úr hverri hreyfingu leikmannsins. Didier Drogba er annar slíkur leikmaður sem ákvað að taka sjálfan sig til gagngerrar endurskoðunar og hefur blómstrað sem leikmaður. Þessir tveir leikmenn sáu að allir heimsins peningar gátu ekki gert þá hamingjusama heldur aðeins að þeir væru sáttir við sjálfa sig og sína frammistöðu.


Haustið er komið...

Byltingaleiðtoginn keyrði niður í miðbæ og horfði á haustlitina fjúka burt. Merkilegt hversu lítið við eyjaskeggjar fáum að njóta litbrigða þessa árstíma. En þá að öðru

Fjöldi stjarna í Hollywood hefur lýst því yfir maðurinn sé dýr og þess vegna sé hann ekki einkvænisvera. Þessir frægu einstaklinga telja sig nú hafa fundið líffræðilega afsökun fyrir framhjáhaldi og stóðlífi.

Mundos er alls ekki sammála þessari fullyrðingu og telur hana vera fyrir neðan beltisstað. Fjöldi dýra tileinkar sér einkvæni og nægir þar að nefna hettumávinn sem heldur sig við sama makann allt sitt líf. Væntanlega myndu stjörnurnar, sem halda  framhjá sökum dýrslegs eðlis síns, að þær séu ómerkilegri en mávurinn sem étur sorp.

Hrafninn á bara einn maka allt sitt líf og sömuleiðis slétturottur eins og lesa má hér.

Þess vegna er ekkert dýrslegt við það að eiga fjölda rekkjunauta heldur frekar ó - dýrslegt og stríðir gegn eðli mannsins, sem vissulega er dýr en samkvæmt líffræðilegum rannsóknum hneigist hann frekar til einkvænis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Freyr Gígja Gunnarsson
Blaðamaður, golfari og sjúklegur aðdáandi enska knattspyrnuliðsins Liverpool. Umfram allt húsbóndi á Hjarðarhaga 46 þar sem húsfreyjan Júlía Margrét ræður ríkjum.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband