Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
9.10.2006 | 20:34
Ekki auðvelt að vera frægur eða hvað?
Lífið er ekki alltaf dans á rósum hjá stjörnunum eins og sjá má af þessari frétt mbl.is. Ekki er nóg með að fræga fólkið hafi ekkert einkalíf heldur lekur allt sem gerist í þeirra lífi til fjölmiðla.
Fræga fólkið fær hins vegar ekki mikla sambúð hjá Mundos. Svokallaðar stjörnur lifa á því að birtast í fjölmiðlum og sumar hverjar gera í því að birtast á síðum slúðurblaðanna. Gildir einu hvert umfjöllunarefnið er.
Góð dæmi um stjörnur sem þurfa ekki á fjölmiðlaathygli að halda vegna snilldar þeirra á sínum vettvangi eru leikarar á borð við Paul Newman, Robert De Niro og söngvarann Bono. Veit einhver hvað kona DeNiro heitir? Af gamni hefur Mundos tekið saman nokkur atriði um þessa aðila sem oft birtast á síðum dagblaða en sjaldnast vegna atvika í sínu einkalífi.
Paul Newman hefur verið giftur Joanne Woodvard frá árinu 1958. Hann skildi við fyrri eiginkonu sína, Jackie Witte, árið 1958 til að vera með Woodvard en hann átti með Jackie þrjú börn og á jafnmörg með núverandi eiginkonu. Newman hefur nýtt sér frægðina til að aðstoða börn og flestir Íslendingar ættu að kannast við Newman's Own - línuna en hún samanstendur af margvíslegu góðgæti sem margir gæða sér á fyrir framan imbakassann. Til merkis um hversu mikið hjónin halda sig fyrir sig sjálf er að þegar flett er uppá nöfnum þeirra á Google kemur ekki ein einasta mynd. Til samanburðar má benda á að 115 myndir fundust af Katie Holmes og Tom Cruise.
Robert De Niro giftist fyrst Diahne Abbot árið 1976 en þau skildu eftir ellefu ára hjónabandi og áttu þau eitt barn saman. Tæpum níu árum síðar kynntist De Niro núverandi eiginkonu sinni, Grace Hightower, og á með henni eitt barn. De Niro var eitt sinn tengdur við vændishring í Frakklandi en var sýknaður af öllum ákærum. De Niro og Hightower ætluðu að skilja árið 2001 en tókst að leysa vandamálin sem þau stóðu frammi fyrir. Leikarinn vill algjört næði og gefur ekki kost á sér í viðtöl. Blaðamaður fékk viðtal við leikarann en mátti ekki spyrja De Niro um stjórnmálaskoðanir hans, fjölskyldu, trúarbrögð eða áhuga hans á góðum vínum.
Bono eða Paul Hewson hefur verið giftur sömu konunni frá árinu 1982, henni Ali Hewson og á með henni fjögur börn. Þetta hlýtur að teljast ótrúlegt þar sem U2 hefur verið ein fremsta rokksveit heims frá árinu 1982 og hefur hlotið samtals 22 Grammy - verðlaun. Á heimasíðunni imdb.com má finna skemmtilega sögu af Ali sem eitt sinn var hvött til að bjóða sig fram til forseta -embættis Írlands. "Bono myndi aldrei vilja flytja inn í minna hús," svaraði hún.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 17:52
Guantanamo: Helför nútímans
Guantanamo - fangelsið á Kúbu er eitthvað besta dæmið um að stríðið gegn hryðjuverkum fór úr böndunum um leið og til þess var stofnað. Fyrir skömmu hingað tveir fangar, þeir Ruhal Ahmed og Asif Iqbal, og lýstu veru sinni á staðnum sem oft er nefndur Helvíti á jörð.
Kvikmyndin The Road to Guantanamo segir frá Tripton - þrímenningunum sem í "fíflaskap" eins og einn þeirra orðaði það í viðtali héldu til Afganistan en lentu þar í miðri árás Bandaríkjamanna og voru teknir til fanga, grunaðir um að vera handabendi Al Kaída.
Lýsingar Ahmed og Iqbal voru skelfilegar. Í raun er það hálf ótrúlegt að eitthvert vestrænt ríki skuli ekki enn hafa slitið stjórnmálasambandi við Bandaríkin vegna þessa máls. Ætli peningar og völd hafi blindað mennina sem stjórna heiminum. Bandaríkin eru jú eitt öflugasta hernaðarríki heims og án nokkurs vafa eitt það valdamesta. Úr því að Davíð er hættur er engin hætta á að hann styggi "besta vininn" sinn.
Nú eru Kanarnir loksins farnir frá Keflavík, kannski ætti þetta herlausa land að segja þeim aðeins til syndanna, heimta lokun Guantanamo að öðrum kosti geti Kaninn hypjað sér í burtu. En kannski er stundum betra að loka augunum, trúa í blindni á þetta ofnotaða frelsishugtak sem er sveipað einhverjum dýrðarljóma hjá Ameríkunni. Hugsa bara eins og flestir aðrir stjórnendur Evrópu; Guantanamo á eftir að hverfa, gleymast enda er sagan ætíð skrifuð af sigurvegurum, ekki af þeim sem sitja í Guantanamo.
Eflaust hafa einhverjir hugsað slíkt hið sama þegar Þjóðverjar sendu milljónir Gyðinga í útrýmingabúðirnar. Helförin gleymist bara en það er í raun eina vandamálið við hugtakið "Saga". Hún gleymist aldrei, fyrnist ekkert. Þegar fram líða stundir verður listi hinna staðföstu þjóða hengdur uppá safni fyrir komandi kynslóðir sem merki um það hversu múgsefjun í alþjóðasamfélagi er hættuleg frelsinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 17:28
Svo bregðast krosstré sem önnur
Frakkland hefur lengi verið griðarland munaðarseggja sem vilja njóta allra "synda" heimsins. Lóðvík sólkonungur var ekki beint hófsamur á mat, vín eða konur og fáir höfðu jafn góðan smekk og Napóleon.
Frakkar brugga vínið manna best og einn þekktasti munaðardrykkur allra tíma, kampavínið, er nefnt eftir héraði í Suður - Frakkalandi. Frétt mbl.is bendi hins vegar til að tímarnir séu að breytast hjá Fransmönnum því nú verður brátt bannað að reykja almenningsstöðum og eftir tvö ár má hvergi reykja inná börum, kaffihúsum né veitingastöðum.
Nú þætti Mundos forvitnilegt að sjá hvernig listamennirnir, sem öldum saman hafa setið við Signu með kaffi og rettu, rætt heimsmálin, heimspekina eða nýjustu frilluna, taka þessum breytingum. Kannski er þarna tækifæri fyrir Ísland og ferðamannaiðnaðinn hér á landi. Bjóða uppá reykferðir til landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 13:29
Danska þjóðin slær í gegn
Danmörk og danska þjóðin er merkilegt fyrirbæri. Skopmyndirnar af Múhammed spámanni sem Jyllands Posten birti fyrr á þessu ári vöktu mikla reiði en vörpuðu líka nauðsynlegu ljósi á hversu eldfimmt ástand heimsmálanna er.. Nauðsynin á samræðum milli trúarbragða kristalllaðist ef til vill best í því að Vesturlandabúar töldu viðbrögð múslima vera árás á tjáningarfrelsið sem er þeim svo heilagt en múslimar töldu skopmyndirnar vera birtar í þeim eina tilgangi að egna og ögra sér og sinni trú.
Nú hafa Danir enn og aftur komið sér í kastljós fjölmiðla eftir að dagblað birti forsíðufrétt þess efnis að ungliðahreyfing þjóðarflokksins hefði stundað það á flokksþingi sínu að gera grín að Múhammed spámanni.
Engu skyldi dyljast það að rasismi og andúð á flóttafólki eða útlendingum fer stigmagnandi í Danmörku. Fólk af erlendu bergi brotnu vinnu í láglaunastörfum og ef atvinnuleysi fer að gera vart um sig á danskri grundu má reikna með mikilli öldu hvers kyns fordóma gagnvart þeim sem ekki eru Baunverjar.
Vissulega má deila um hvort svokölluð afhelgun hins vestræna þjóðfélags hafi komið því til góðs. Skilnaðir, óskilgetin börn, kynsjúkdómar, áfengisvandamál, sifjaspell, stigmagnandi ofbeldi, fíkniefni, mansal og hórerí eru allt hlutir sem hafa stigmagnast síðan að siðapostular vesturhluta ríku álfunnar ákváðu að frelsi og rökhyggja skyldi vera tekin framyfir hvers kyns guðsorð. Ekki má hins vegar gleyma því að Íslam - trúarbrögðin hafa ekki gengið í gegnum svokallað "reformation" eða "siðbót" þar sem trúnni er ögrað og henni stillt upp við vegg.
Margir muna eflaust eftir kvikmyndinni The Life Of Brian eftir Monthy Python þar sem enski flokkurinn gerði óspart grín að Jesú og krossfestingunni. Ekki urðu lætin síðri þegar Martin Scorsese gerði The Last Temptation og hvað þá þegar Mel Gibson tók fyrir pístlarsögu Krists. Þarna voru hins vegar listamenn sem tilheyrðu "kristnum" heimi og gátu því tekið sér það listamannaleyfi til að gera grín að sínu eigin umhverfi, annað hefði hamlað tjáningarfrelsinu. Við höfum hins vegar lítið leyfi til að ráðast á önnur trúarbrögð með jafn ófyrirleitnum hætti og Jyllands Posten gerði fyrr á þessu ári. Við einfaldlega höfum ekki efni á því.
Dönsku þjóðinni er alveg sama þótt einhverjir múslimar verði brjálaðir. Verður jafnvel bara glöð enda aukast þá líkurnar á að þessi "paki" komi sér í burtu.
Danska þjóðin má vara sig, rétt eins og sú ameríska. Rasismi hefur verið hitamál í Ameríku þannig að meira segja kvikmyndafyrirtækin sjá sig þann kostinn vænstan að framleiða eina forvarnarmynd á ári um heimsku kynþáttahaturs. Varla líður á löngu þar til íslenskir kvikmyndahúsagestir fá að sjá danska útgáfu af Crash.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2006 | 22:29
Skeggjaðir andskotar
Mundos hefur orðið var við afbrýðissemi karla í garð kynbræðra sinna sem bera skegg með stolti. Vinur Mundosar, sem hefur fátt annað til brunns að bera nema þétta og stinna bumbu og mikla og dökka skeggrót, varð meðal annars fyrir aðkasti þegar hann sprangaði um bæinn með mikið alskegg. Þegar það var horfið eftir að matarleifar síðustu tveggja vikna fundust við hefðbundna baðferð fann vinur Mundosar fyrir meiri hlýleika frá félögum sínum. Mundos hefur því ákveðið að birta hér lista yfir mikilmenni sem allir báru falleg skegg:
Che Guevera: Byltingamaðurinn frá Argentínu reyndi að frelsa Suður - Ameríku undan oki auðvaldsins en tókst aldrei að sjá fyrirheitna landið. Sumir hafa viljað líkja honum við Jesú og þessi samlíking var meðal annars gerð góð skil í kvikmyndinni Mótórhjóladagbækurnar eftir Walter Salles þar sem Gael Garcia Bernal lék Guevera. Mundos telur hins vegar að byltingamaðurinn eigi mun meira sameiginlegt með Móse en sá merki leiðtogi drap hvern þann sem efaðist um tilvist Guðs.
Fídel Kastró: Lét sér það litlu varða þótt einhverjir moldríkir Kanar héldu uppi efnahag landsins með spillingu og misskiptingu auðsins. Kúbverjar skyldu frelsast, hvað sem það kostaði og ríku karlarnir voru reknir til Flórída þar sem þeir spila golf með íslenskum flugstjórum. Kúbverjar lifa hins vegar lengur ef þeir fá einn vindil á dag og gott kynlíf. Ekki amaleg uppskrift
Jón Sigurðsson: Var bara í góðum málum hjá Seðlabankanum þegar kallið kom frá dauðvona flokk vegna þess að forsætisráðherrann fannst hann ekki nógu vinsæll. Jón gerði eins og sannur byltingamaður og tók slaginn fyrir sína menn. Þótt Mundos kunni ekkert sérstaklega við "Gömlu frúnna í grænu" þá tekur hann hattinn ofan fyrir mönnum eins og Jóni sem hverfa úr fílabeinsturninum við höfnina og blanda geði við alþýðuna.
Gunnar Þorsteinsson: Siðvandur maður sem stendur fast á sínu og lætur ekki einhverja hottentotta vaða yfir sig á skítugum skónum. Þótt Mundos sé hvergi nærri sammála þeim skoðunum sem Gunnar predikar í sínum söfnuði þá væri það nú óskandi að landinu væri stjórnað af mönnum sem höguðu ekki alltaf seglum eftir vindum heldur tækju stundum óvinsælar ákvarðanir eins og Davíð Oddsson sagði eitt sinn. Gunnar hefur jafnframt í heiðri annars manns sem settur verður frá við fyrsta tækifæri þegar byltinginn hefur dreifst út um allan heim, sjálfs George W. Bush. "Þeir sem eru ekki með mér eru á móti mér."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2006 | 00:46
Jafntefli hjá Skjern: Lykilmaður íhugar að gerast byltingarsinni
Danska handknattleiksliðið Skjern gerði í gærkvöldi jafntefli við þvottefnisliðið Ajax. Dómarar leiksins léku stórt hlutverk á síðustu mínútunum en það skipti að venju ekki sköpum. Frammistaða liðsins í þær sextíu mínútur sem leikurinn stendur yfir er það sem allt snýst um. Í það minnsta er það kalt mat Mundos (allt sem hann segir er jú heilagur sannleikur).
Vignir Svavarsson, sem leikur einmitt með Skjern, er alvarlega að íhuga hvort hann eigi nú að leggja skóna á hilluna eftir þennan tapleik en hann skoraði einungis þrjú mörk. "Ég veit af því að það er verið að undirbúa byltingu á Íslandi og er mjög spenntur fyrir þeirri stemningu sem þar er að skapast," sagði Vignir í samtali við Mundos - bloggið sem auðvitað fagnar öllum nýjum liðsmönnum, þá sér í lagi Vigni.
Mundos vill að endingu koma á framfæri þakklæti sínu til Jeppe en hann hefur verið duglegur við að senda hreyfingunni blóm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2006 | 21:34
Bloggarar aldarinnar
Mundos vonast til þess að bloggið hans verði einhvern tímann tekið alvarlegt og menn leyfi sér ekki eina einustu sekúndu að efast um að bylting sé á næsta leyti. Eftir því sem Mundos skoðar bloggheiminn meira verður honum ljóst að hann verður að vingast við kóngana á netinu. Mundos gerir sér að sjálfsögðu væntingar um að þessir heiðursmenn muni setja hann sem tengil því annars fá þeir ekki að vera með í liði sigurvegaranna.
Þess vegna hefur Mundos ákveðið að hrífast af þessum en stofna til skjallbandalags með þessum. Þegar Mundos hefur komið sér í mjúkinn hjá þessum tveimur heiðursmönnum er ekki úr vegi að kynna til leiks þennan og þennan. Til þess að auka enn frekar á vinsældir sínar á netinu og meðal landsmanna allra hefur Mundos ákveðið að leyfa þessum að hafa tengil á sinni síðu.
Lengi lifi skjallbandalög og hæfileikinn til að tengjast fólki sem vita ekkert af því....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 21:10
Frelsið er falt fyrir allt
Mundos er reiður, já, jafnvel svo reiður að hann hyggst innleiða Holland inní sitt réttláta ríki. Ástæðuna má sjá hér.
Eins og sjá má í fréttinni gat hollenska ríkið ekki bannað flokk barnaníðinga þrátt fyrir að stefnumál þeirra væru lækkun samræðisaldurs og kynlíf með dýrum. Holland er vissulega frjálslynt land en þar má reykja hass og kaupa sér hórur...fínt fyrir þá sem það vilja, börnin verðum við hins vegar að vernda með öllum hugsanlegum ráðum.
Frelsið, þetta vandmeðfarna hugtak, hefur því greinilega snúist í höndunum á Hollendingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 21:00
Af viðurnöfnum og menningarpáfum
Þegar byltingin er um garð gengin mega menningapáfar eiga von á góðu enda er Mundos þekktur fyrir ást sína á hvers kyns listum. En eittt skilur byltingaforinginn ekki:
Stórvinur Mundos og dyggur liðsmaður í byltingahreyfingunni lenti í heldur óskemmtilegu atviki fyrir nokkru. Þar var þessi holli maður spurður hvort hann vissi ekki hvað Gio ætlaði að taka sér næst fyrir hendur. Sá er spurði var þess handviss að vinur Mundos vissi hver þessi Gio væri. "Ertu að tala um Giovanni Brunkhurst sem spilar með Barcelona," sagði hin trúi byltingamaður enda mundi hann glöggt eftir því að hollenski bakvörðurinn spilar jafnan með nafnið Gio á bakinu en uppskar bara hlátur samstarfsmanna sinna. "Nei, Gio, leikhússtjórann," var hrækt framan í hann. "Já, þú ert að meina GUÐJÓN PETERSEN!!!" Þá kom undarlegt fés á vinnufélaganna. "Hver er þessi Guðjón Petersen?" spurðu þeir um hæl.
Já, listamafían svokallaða getur verið undarleg og þykist ekkert kannast við alvörunöfn þeirra sem starfa með listagyðjunni þegar einhverjir hafa gefið tilteknum aðila gælunafn. Aldrei minnist Mundos þess að þessi annars ágæti maður hafi verið nefndur neitt annað en Guðjón Petersen, hvorki á mannamótum né í fjölmiðlum en það getur líka verið að Mundos og vinir hans umgangist ranga fólkið. Mundos mun svo sannarlega gera bragabót þegar hann kemst til valda...
ps. Öðru máli gegnir hins vegar um BUBBA og MEGAS sem hvorugir eru kallaðir réttum nöfnum í fjölmiðlum heldur viðurnöfnum....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 20:47
Stjórnarandstaðan tekur á sig heildstæða mynd....eða hvað?
Samfylkingin, Frjálslyndir og Vinstri grænir hafa boðað sterkari stjórnarandstöðu til að koma núverandi ríkisstjórn frá. Mundos gæti ekki verið meira saman því hann telur að næstu kosningar komi til með að ráðast af velgengni eins flokks; Samfylkingarinnar.
Þessi vinstri flokkur hefur einhvern vegin aldrei náð sér á strik og minnir eilítið á velmannað knattspyrnulið sem stenst engan veginn þær væntingar sem til þess hefur verið gert.
Mundos man vel eftir því þegar Samfylkingin var stofnuð og gerði sér miklar vonir um að þarna væri loksins komið andsvar við langvarandi yfirburðum Sjálfstæðisflokksins. Ekki það að Mundos vildi eitthvað koma hinum bláu frá völdum heldur þótti Mundos bara svo leiðinlegt að horfa uppá þennan ójafna leik...
Mundos hefur því ekki mikla trú á þessu samkrulli stjórnarandstöðuflokkanna því ef horft er til sameiningar íþróttafélaganna þá hefur það aldrei gefist vel...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi