Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
11.1.2007 | 00:06
Skelfingin er sönn
Sjálfur veit höfundur þessar blogg ekki hvernig hann á að bregðast við, fötlunin er hrikaleg og aðstæðurnar skelfilegar.
Viðtal við hjúkrunarfræðing sýnir glöggt hversu mikið þetta fær á það ósérhlífna starfsfólk sem reynir allt hvað það getur til að láta hinum sjúku líða bærilega þrátt fyrir bágan efnahag og lokuð augu alþjóðasamfélagsins. Tsjernobyl er slysið sem engin vill lengur vita af og vestræn lýðveldi vilja helst að hverfi.
Aðeins fimmtán til tuttugu prósent barna fæðast heilbrigð á þessu svæði, velkominn til Children of Men. Skelfingin er sönn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 22:00
Misheppnaður brandari Vinstri Grænna?
Fátt er meira hitamál hjá netverjum um þessar mundir en áramótauppgjör vefsíðunnar Múrinn. Stjórnmálamenn og aðrir sem telja sig hafa eitthvað til málanna að leggja eru flestir á einu máli, brandari stjórnenda vefsins um Margréti Frímansdóttur þar sem æviminningar hennar voru tengdar við raunarsögu Telmu Ásdísardóttur er misheppnaður í meira lagi.
Mesta athygli vekur að Svandís Svavarsdóttir, flokksystir Jakobs-barnanna sem eru í fremst í flokki Múrverja, fordæmdi þessi skrif og Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki sagt múkk þrátt fyrir að Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri Græna, hafi reynt að hylma yfir brandaranum með langsóttum hætti.
Björn Ingi Hrafnsson, Össur Skarphéðinsson og Björn Bjarnason hafa fordæmt þessi skrif sem og Salvör Gissurardóttir.
Þorsteinn Guðmundsson, grínarinn góði, lét hafa eftir sér í viðtali að fólk ætti láta fagmenn um grínið. Múrinn hefði sennilega átt að leggja betur við hlustir ef miðað er við þverpólitísk viðbrögð bloggheimsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 01:06
Dómur: Children of Men
Á nokkurra ára fresti koma myndir í bíó sem snerta áhorfendann, slá hann utan undir og þegar þær hafa runnið sitt skeið á enda situr hann eftir í sætinu og andvarpar en spyr sig síðan: Af hverju eru framleitt svona mikið af drasli þegar hægt er að búa til kvikmyndir eins og þessa?
Children of Men fjallar um Theo sem hefur glatað trúnni á lífið. Ekki að undra; ekki hefur fæðst barn á jörðinni í átján ár og það yngsta var nýlega drepið í múgæsingi. Hann getur því ekki skorast undan þegar gömul æskuást kemur að máli við hann og biður um að gera sér greiða, útvega ungri stúlku að nafni Kee fölskuð ferðaskjöl svo hægt sé að koma henni úr landi. Of langt mál er að rekja söguþráðinn eitthvað frekar hér, mergurinn málsins er sá að Kee er ólétt og þarf að komast til samtaka vísindamanna sem reyna finna leið út úr ógöngum jarðarbúa.
Leikstjórinn Alfonso Cuarón tekst með ótrúlegum hætti að skapa umhverfi í London og litlum sveitabæjum Englands sem er það trúverðugt að áhorfandinn leyfir sér ekki eitt augnablik að efast um að svona myndi og gæti þetta verið. Myndartökurnar eru yfir lýsingarorð hafnar auk þess sem klippingin er allt að því fullkominn og tónlistin leikur sér að því að fá áhorfendann fram á sætisbrúnna.
Sagan um Theo og Kee er uppfull af vísunum í kristna trú, konan í fjósinu, Theo, sem fylgir henni og leggur líf sitt í hættu fyrir barnið jafnvel þótt hann eigi ekkert í því, er allt að því spegilmynd af Jósef og að sjálfsögðu barnið sjálft: Frelsari mannkyns undan sjálfstortímingu sinni. Athyglisvert er að fylgjast með framkomu yfirvalda í garð útlendinga í myndinni og óneitanlega læðist að manni myndir úr Guantanamo-búðum Bandaríkjamanna á Kúbu. Kannski er Children of Men ekkert svo fjarri raunveruleikanum eftir allt saman.
Leikurinn er óaðfinnalegur og ljóst að bandarísku Pittararnir geta pakkað saman og farið heim; Clive Owen á sviðið um þessar mundir. Hvorki Julianna Moore né Micheal Caine stíga feilspor í hlutverkum sínum þótt þau nái aldrei að stela senunni af Owen.
Children of Men verðskuldar allar klisjur gagnrýnenda sem oft finna uppá frösum til að rata á kvikmyndaplaköt, fátt gleður hégómagirnd þeirra meira en að sjá stafi þeirra við hliðina á stórstjörnunum í Hollywood. "Ef þú ætlar að sjá eina mynd, sjáðu þessa," eða "Besta mynd síðari ára" að ógleymdum þessum: "Ef þú hefur ekki séð Children of Men þá hefur ekki séð neitt."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 22:19
Sigurjón ritstjóri svarar fyrir sig
Sigurjón Magnús Egilsson gerir athugasemd við frétt sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn en þar var gert góðlátlegt grín að því hversu lík forsíða hins nýja blaðs hans var gamalli forsíðu með sama viðtalsefni, Ragnheiði Ástu Pétursdóttur. Sigurjón fattaði greinilega ekki brandarann og fannst þetta vera hálfgerð árás á sig og sín verk en um þetta má lesa hér.
Sigurjón á marga og góða vini og vitnar ósjaldan í þá. Einn vinur Sigurjóns kallar víst Fréttablaðið SDB eða Stóra dreifiblaðið. Hefði verið forvitnilegt að sjá viðbrögð Sigurjóns ef sá og hinn sami hefði kallað Fréttablaðið slíku nafni þegar hann sat við stjórnvölin í Skaftahlíðinni? Nú eða Blaðið en Sigurjón ritstýrði því eins og frægt er orðið. Þessir huldumenn sem Sigurjón á eru farnir að minna á flokk ósýnilegra stuðningsmanna Alberts heitins Guðmundssonar. Væri ekki nær fyrir ritstjóra blaðs sem ætlar að vera beitt í umfjöllun sinni að koma bara hreint fram og segja sína skoðun á fréttum annarra miðla og þá ekki síst um sinn eigin.
Og Sigurjón heldur áfram. Segist finna fyrir því að Fréttablaðinu sé að hraka. Og vitnar í annan vin sinn um að það sé orðið jafn hliðhollt stjórnvöldum og Pravda (sökum fáfræði verður ritari að viðurkenna að hann hefur ekki hugmynd um hvað blað það er og biður lesendur sína afsökunar á vitsmunaskorti sínum í þeim efnum). Sigurjóni væri nær að líta á lestrartölur en nýleg skoðanakönnun - sem reyndar sýnir svipaða þróun um alla heima, að lestur á dagblöðum fer minnkandi - kemur í ljós að lestur Fréttablaðsins minnkar hvað minnst og eftir hið stóra stökk undir stjórn Sigurjóns á Blaðinu fór lestur þess sömu leið. Niður á við en þetta má sjá á vef Capecent.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 01:19
Tilfinningalegt svigrúm handa frægum
Mikið væri nú gott ef fræga fólkið fengi tilfinningalegt svigrúm í fjölmiðlum. Ef hreinlega engin myndi sýna neinu sem þeir væru að gera neina athygli, þeir þyrftu jú listrænt svigrúm... Slíkt myndi væntanlega ríða þessum aðilum að fullu.
Hið merkilega er að frægt fólk þrífst á athygli. Paul McCartney og Heather Mills væru væntanlega löngu búin að láta sökkva blöðum á borð við The Sun, Daily Mail og Mirror í skaðabótamálum miðað við þá umfjöllun sem skilnaður þeirra hefur fengið á undangengnum mánuðum. Þau vita hins vegar sem er, Paul sem listamaður og Heather sem talskona margvíslegra góðgerðarstarfsemi, að starf þeirra byggist einmitt á stórum hluta á athygli. Ef hjónakornin þyldu ekki kastljós fjölmiðla væru hvorki Paul né Heather það sem þau væru í dag. Stjórnmálamaður sem þyldi ekki að sífellt væri verið að ráðast á skoðanir hans og jafnvel persónu myndi fljótt hrökklast úr starfi. Þetta fylgir einfaldlega starfinu þótt auðvitað sé hægt að komast hjá slíkum árásum með klækindum. Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, sagði mjög eftirminnilega að sér fyndist hálf asnalegt þegar aðrir í hans geira byðu fjölmiðlum heim til sín og seldu sig eins og markaðsvöru. Sérstaklega rétt fyrir kosningar.
Magni Ásgeirsson og Eyrún Haraldsdóttir tilkynntu nýlega í sameiginlegri fréttatilkynningu að þau hefðu ákveðið að slíta samvistir. Þegar fræga fólkið hættir saman þá hafa engin fordæmi verið fyrir því að senda frá sér fréttatilkynningu á Íslandi, nema kannski Ólafur og Dorrit en látum það liggja á milli hluta.
"Já, þetta er búið en ég vil ekki tjá mig neitt frekar um málið við fjölmiðla," hafa venjulega verið viðbrögð þeirra sem hafa verið fastagestir á síðum blaðanna, með munninn fullan af ást sem síðan sprakk. Sagan segir að parið hafi fengið þraulreyndan fjölmiðlafulltrúa til að semja fréttatilkynninguna með sér. Þessi viðbrögð sýna ef til vill best hversu vel meðvitaður Magni er um hvað athygli getur komið mönnum í hæstu hæðir. Ekki þarf annað en að skoða feril söngvarans fyrir ári síðan þegar fjölmiðlar kepptust um að gera grín að tónsmíðum hans og hljómsveitarinnar Á móti Sól.
Magni varð hins vegar súper-stjarna á örskammri stundu með þátttöku sinni í Rock Star: Supernova og gerðist svo djarfur að draga fjölskylduna sína inní málið. Lýsti því ósjaldan yfir hversu sár söknuðurinn væri og hvað það væri erfitt að vera fjarri konu og nýfæddu barni. Svo langt gekk þessi fjölskyldudýrkun á Magna að stórfyrirtæki landsins sameinuðust um að bjóða unnustu hans og syni til Los Angeles þannig að hún gæti fylgst stolt með sínum manni. Þjóðin tók miklu ástfóstri við þessa dökkhærðu sveitastelpu sem beið þolinmóð heima með afkvæminu eftir manni sínum. Minnti á hinar vestfirsku konur til forna sem töldu það ekki eftir sér að sjá á eftir manni sínum í baráttuna við Ægi og Kára. Vafalaust hefði þjóðin ekki fylgt sér jafnmikið að baki Magna ef hann hefði verið rótlaus maður eða jafnvel skíthæll sem slægi sér upp með konu í hverri höfn. Nei, Magni var fjölskyldufaðir og rokkari. Og nú skyldi engin gera lítið úr þessari markaðsetningu, ef svo má að orði komast. Magni hefur vafalítið ekki vitað að þessi yrðu örlög skötuhjúanna.
Með þátttöku sinni, með þessari ástríðu gagnvart því að vilja gera músík og hafa lifibrauð af því afsalaði Magni sér hins vegar á einhvern hátt rétt til einkalífs. Nema að hann hefði sleppt því að draga konuna og son sinn inní málið. Samband þeirra varð á einhvern hátt almannaeign að erlendri fyrirmynd. Svona á sér í raun engin fordæmi í íslensku samfélagi.
Ekki þarf annað en að horfa til Bandaríkjanna eða Bretlands. Sum pör eru einfaldlega meira í fréttum en önnur. Ekki vegna þess að þau séu eitthvað frægari en önnur, einfaldlega vegna þess að frægð þeirra og frami byggist á sambandinu. Nick Lachey og Jessica Simpson, Victoria og David Beckham og meira að segja popp-prinsessan Britney Spears lét tilleiðast að leyfa gerð raunveruleikaþáttar um hjónaband sitt við K-Fed. Og þar með sannast hið fornkveðna- ekki er bæði hægt að halda og sleppa. Ef þú villt að ástin sé fréttaefni þá verður ástarsorgin það líka, hvort sem þér líkar það betur eða verr.
Fjölmiðlar verða hins vegar alltaf að gæta fyllstu varúðar og forðast allar getgátur í þessum málum. Skrifa einfaldlega fréttir af málinu sem eru bæði réttar og sannar hverju sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 00:04
DV breytir um ritstjóra en varla útlit
Sigurjón Magnús Egilsson gaf út sitt fyrsta DV-blað í dag. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess blaðsins en aðeins einn úr "skjallbandalagi Fréttabloggara" hafa látið skoðun sína í ljós á fyrsta eintakinu.
Steingrímur Sævarr Ólafsson furðar sig á því hvernig DV gat sleppt Siv Friðleifsdóttur í úttekt blaðsins á Framsóknarflokknum. Upplýsingafulltrúinn segir að blaðið sé ekki mikið breytt útlitslega en þar sé að finna margar flottar og vel skrifaðar greinar.
Varla telst þetta góð byrjun hjá nýju blaði þegar blaðið fattar ekki að gera stærstu fréttinni sinni skil á forsíðu, að Magni Ásgeirsson og Eyrún Haraldsdóttir séu skilin. Reyndar segir í siðareglum blaðsins, sem birtar voru í blaðinu, að það ætli ekki að hnýsast í einkamál annarra að óþörfu þótt ekki verði annað séð að með "skúbbi" sínu sé blaðið einmitt að gera slíkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007 | 23:37
Hulunni svipt af byltingaforingjanum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi