2.10.2006 | 21:52
Reynir vangar við Baug
Eins og sjá má á hinni ágætu vefsíðu Orðinu virðist sem fjármálafyrirtækið Baugur ætli að færa út kvíarnar enn frekar og hastla sér völl í tímaritaútgáfu því þeir hafa ákveðið að styðja við bakið á nýju blaði Reynis Traustasonar, Ísafold.
Þetta þykir nokkuð merkilegt þar sem Baugur hefur löngum verið venslaður við fjölmiðlarisann 365 en miðað við það sem haldið er fram á Orðinu þá er þetta í fullu samræmi við fjárfestingastefnu fyrirtækisins. Ekki skyldi maður leyfa sér að efast um orðið á götunni. Baugur er reyndar bara lítill hluthafi í 365 þannig að þetta ætti ekki að koma að sök en ef einhvern tímann hefur verið talað um Baugstíðindi þá.... Rámar undirritaðan í pistil sem hann heldur að rithöfundurinn Þráinn Bertelsson hafi skrifað eitt sinn þar sem hann hélt því fram að ekki væri lengur hægt að kaupa blóm, fara í bíó, horfa á sjónvarpið eða lesa blöðin án þess að Baugur ætti þar hlut að máli.
Fyrir þá sem hafa gaman af því að fabúlera og skálda samsæriskenningar mætti ætla að Baugs - veldið hefði horn í síðu hins nýja tímaritafyrirtækis Birtings sem eitt sinn hét Fróði en þar ræður Sigurður G. Guðjónsson. Samsæriskenningasmiðir á borð við Jerry Fletcher sem Mel Gibson lék í Conspiracy Theory hafa farið á flug og talið víst að einhvers staðar liggi þráður frá frönsku sögupersónunni til Björgólfs - feðga. Mörgum er það eflaust enn í fersku minni þegar NFS (blessuð sé minning hennar) birti frétt af því að Björgólfur og sonur hans hefðu reynt að kaupa DV þegar þeim líkaði ekki umfjöllun um sína einkahagi. Um það hefur verið rætt á kaffistofum landsmanna að þeir feðgar stæðu pottþétt á bakvið nýja blaðið en svo virðist ekki vera. Má því vera að Björgólfur og hans menn sæju að ekki tæki því að standa í svona titlingaskít...leyfa Bónusfeðgum að vaða drulluna upp að eyrum í fjölmiðlum enda er það engin tilviljun að Björgúlfur skuli vera 250. ríkasti maður heims, hann á engan íslenskan fjölmiðil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 20:45
Hvað er eiginlega að?
Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu við setningu Alþingis og talaði um að virkjun náttúrunnar gæti orðið svipað hitamál og vera hersins á Miðnesheiði. Hittir forsetinn þar naglann á höfuðið? Já, í raun má segja að Ólafur hafi þarna greint kjarnann frá hisminu. Hvað gerum við þegar virkjunin deyr, þegar álframleiðsla verður lögð niður á Austurlandi?
Jakkafataklæddu karlarnir í Alcoa munu hafa fjárfest sínum peningum í einhverju öðru ábótasömu, þeir geta lifað náðugu lífi þótt ein virkjun til eða frá leggist af. Hvað þá í einum af útnára heimsins. Þeir hundruðu sem missa vinnuna sína þá verða að leggja höfuðið í bleyti, hugsa um einhver önnur ráð sem tengjast ekki stóriðju. Rétt eins og hefði átt að gera í upphafi.
Mistökin liggja fyrst og fremst hjá landsbyggðarstefnu stjórnvalda. Algjört skeytingarleysi gagnvart þeim sem byggja sveitirnar og hinar fámennu byggðir. Til álversins í Reyðarfirði hefði aldrei þurft að grípa ef menn hefðu ekki hugsað svona mikið um mölina við Faxaflóa. Um eigið rassgat.
Kynslóðirnar á undan okkur svikust um og þeirra mistök bitna á þessari kynslóð sem nú byggir landið, rétt eins og Kárahnjúkar eiga eftir að verða vandamál komandi kynslóða. Rétt eins og brottför hersins er vandamálið okkar. Og þar hitti Ólafur svo sannarlega á naglann þegar hann setti Alþingi Íslands sem samþykkti þetta allt saman, bæði her og virkjun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 18:58
Alfreð hafði betur
Guðjón Valur Sigurðsson fór hamförum með liði sínu Gummersbach á fjölum Laugardalshallarinnar þegar hann skoraði sextán mörk gegn Fram í meistaradeildinni. Leikmaðurinn sýndi hvers vegna hann varð markahæstur og kosinn leikmaður ársins í Þýskalandi og skoraði mörk í öllum regnbogans litum.
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska liðsins, sagði rétt í þessu í samtali við Sýn að hann hefði verið ansi nærri því að lemja liðsmenn sína eftir að þeir höfðu leikið skelfilega í fyrri hálfleik. Leikmennirnir, rétt eins og flestir aðrir, vildu ekki fá að kenna á líkamlegum kröftum kappans og létu hendur standa fram úr ermum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 10:38
Maður vikunnar
Sasha Baron Cohen hlýtur að vera maður vikunnar, ef ekki mánaðarins. Honum hefur tekist að koma Kasakstan á kortið með mynd sinni um þarlendan blaðamann, Borat. Stjórnvöld í Kasakstan hafa reynt allt hvað þau geta til að koma í veg fyrir sýningu myndarinnar og hafa meira að segja átt fundi við George Bush þar sem málefni Sasha Baron Cohen hafa verið tekin fyrir. Kasakstan á hönk upp í bakið á Vesturveldinu því landið styður "stríðið gegn hryðjuverkum" og er nauðsynlegur bandamaður Bandaríkjanna í því.
Reyndar var Íslendingur á ferðinni í Kasakstan því kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson reyndi fyrir sér þar á áskorendamóti en hafði ekki erindi sem erfiði.
Þekktasta persóna Cohen er án nokkurs vafa Ali - G sem sló eftirminnilega í gegn hér á landi fyrir nokkrum árum. Þá var Borat bara aukapersóna, og Cohen fékk að gera kvikmynd um Ali. Hún reyndist hins vegar hálfgert flopp. Honum virðist hins vegar ætla að takast betur upp með þennan kolgeðveika Borat en þeir sem hafa séð úr myndinni liggja í jörðinni og veltast um af hlátri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 03:12
Íslenski fáninn
Herinn er farinn. Bandaríski fáninn er ekki lengur við húni í Keflavík heldur hefur honum verið pakkað niður og sendur vestur um haf. Með viðhöfn enda heilagur í augum kanans.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað eigi að koma í staðinn fyrir herstöðina. Háskólasamfélag, vísindaþorp, eitthvað sem lifir lengi, í það minnsta lengur en herinn, sem stóð upp og fór.
Í því felst einmitt lausnin. Að búa til eitthvað sem lifir lengur heldur en einhver stóriðja eða herseta. Stríð vara ekki að eilífu á sama staðnum, það er í eðli ógnarinnar að flytjast á milli staða. Eitt sinn voru það nasistar, svo komunistar og núna islamistar.
Stóriðja er engin lausn en við sáum það öll of seint. Hálslón er staðreynd, nú þarf að beina sjónum okkar eitthvað annað.
Ómar Ragnarsson fær hrós. Hugsjónamaður sem ákvað að segja skilið við líf sitt sem fréttamaður og berjast fyrir verndun náttúrunnar. Kom bara hreint fram. Aðrir mættu taka þetta til fyrirmyndar. Ælti helsta vandamálið við fjölmiðla sé ekki það að þeir eru of hlutlausir. Taka enga afstöðu. Vilja ekki hræða burt lesendur sem síðan fælir auglýsendur.
Andri Snær fær líka hrós en hugmyndir þeirra komu of seint. Draumalandinu var sökkt og nú þarf að vernda þau sem eftir eru. Með góðum ráðum og hugmyndum en ekki bara nei og aftur nei. Þýðir ekki bara að segjast ekki vilja en hafa síðan ekkert annað fram að færa.
Hræsnarar ársins eru hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson og fjölmiðlar. Einhver stærsta framkvæmd Íslandssögunnar var samþykkt hljóðlega og án nokkurar gagnrýni en þegar Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson fremstan í flokki ætlaði að koma lögum yfir fjölmiðla risu þeir upp, allir sem einn og kröfðust þess í orði og á borði að forsetinn myndi ekki skrifa undir lögin.
Nú sáu Íslendingar á eftir ósnortnu landi hverfa undir vatn, Óli skrifaði undir, Davíð skrifaði undir, Ingibjörg Sólrún skrifaði undir, allir nema formaður Vinstri Grænna skrifuðu undir, líka þeir sem stóðu hljóðlega hjá en áttuðu sig of seint og friðþægðust við syndir sínar í gönguna hans Ómars.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 00:19
Juventus á sigurbraut
Ítalska stórliðið Juventus ætlar sér greinilega stóra hluti í ítölsku b-deidlinni en liðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð. Söknuður er af hinu svart/hvíta stórveldi meðal hinna bestu sem Michael Laudrup, Platini og Zidane léku allir með á sínum tíma.
David Trezeguet skoraði tvö mörk fyrir Gömlu frúnna í leik þeirra gegn Piazensa en þrátt fyrir það situr liðið enn í neðsta sæti enda hóf liðið keppni með sautján stig í mínus eftir að hafa verið fundið sekt um að hagræða úrslitum í Seríu A.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 00:01
Börnin vinna ekki
Kvikmyndin Börn var ekki meðal verðlaunahafa á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian http://news.bbc.co.uk/2/hi/entertainment/5395462.stm. Kvikmyndin er einhver best leikna íslenska myndin í háa herrans tíða og augljóst að Ragnar Bragason og Vesturport vita nákvæmlega hvað þau eru að gera. Ef marka má frétt BBC þá voru gagnrýnendur ekki sáttir við niðurstöðu dómnefndar og bauluðu á sigurvegarann Mon Fils a Moi eða Sonur minn og því hefði kannski bara verið sniðugra að velja hina hógværu íslensku kvikmynd og koma okkur á kortið á einhverri almennilegri kvikmyndahátíð í stað þess að vera alltaf að rúlla yfir Karlov Vary - hátíðina í Tékklandi sem minnir meira á Smáþjóðaleikana þar sem Íslendingar eru alltaf sigursælir
Reyndar er það hefð á kvikmyndahátíðum að gagnrýnendur og hátíðargestir láti skoðun sína í ljós þegar tilkynnt er um hverjir fara heim sem sigurvegarar. Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandinn góðkunni, varð meðal annars fyrir barðinu á hinum eitilhörðu gestum kvikmyndahátíðarinnar í Cannes þegar Wild at Heart fékk gullpálmann. Mér þykja þau viðbrögð reyndar mjög skrýtin þar sem Wild at Heart er tvímælalaust ein af betri kvikmyndum furðufuglsins David Lynch.
Sigurjón kemur reyndar við sögu á kvikmyndahátíðinni í Reykjavík sem nú stendur yfir en hin æði sérstaka heimildarmynd um Zidane verður frumsýnd í Háskólabíói á sunnudagskvöldinu. Myndin hefur fengið mjög góða dóma hjá kvikmyndagagnrýndendum. Sigurjón veðjaði heldur betur á réttan hest þarna því Zidane leiddi lið Frakka í úrslitaleik HM nú í sumar en skallaði ítalska varnarjaxlinn Materazzi í framlengingu og var vísað af velli. Zidane ætlaði upphaflega að kynna myndina í september með Sigurjóni en hefur lítið viljað láta ná í sig, er víst með HM - timburmenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2006 | 22:48
Og meira af stjörnum
Fjöldi fólks safnaðist fyrir í miðborg Reykjavíkur til að sjá borgina myrkvaða. Borgarbúar voru flestir hverjir með á nótunum og slökktu ljósin en stórfyrirtækin sáu ekki ástæðu til að taka þátt og létu neon - skiltin lýsa upp himininn...stjörnuskin er mjög veikt og áttu því ekki roð í ljósin frá kapítalismanum.
Skýjað var í borginni og því sáust engar stjörnur nema þá kannski á Hótel Borg þar sem menningarelítan safnaðist fyrir og drakk frítt... sannast þar hið fornkveðna að listamenn eru fátækir og þiggja með glöðu geði fría drykki. Þarna voru Ágúst Guðmundsson, Andri Snær og Sigurður Pálsson, áhættusamt hjá Hrönn Marínósdóttir og RIFF, hvað hefði orðið um menningu landsins ef slys hefði orðið á Hótel Borg. Þegar konungsfólkið kemur saman er oft talað um að það hringli í skartgripunum en þarna hringlaði í heilasellunum...
Fyrir þá sem hafa ekki enn séð stjörnubjartan himinn skal þeim bent á að keyra útfyrir bæinn, kannski klukkutíma eða svo, hita kaffi og bíða eftir að stjörnurnar kvikni á himinhvolfinu, mögnuð sjón sem engan svíkur.
Myrkvunin vakti mikla athygli í fjölmiðlum um allan heim og fjölluðu fréttavefir á borð við BBC, Washington Post og Aftonposten um þennan merkilega viðburð sem verður vonandi endurtekin að ári...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2006 | 22:08
Sigur hjá Barcelona...
Barcelona hafði sigur í kvöld gegn Bilbao í spænsku deildinni á útivelli. Okkar maður, Eiður Smári Guðjóhnsen, var heldur betur í sviðsljósinu, fiskaði mann útaf, lagði upp mark fyrir fyrirliðann Pyol og kom síðan Börsungum yfir í seinni hálfleik.
Drengurinn gæti því verið á leiðinni í sömu guðatölu og hin sænski Henke Larson...það verður forvitnilegt að sjá hvernig Smárinn nýtir sér hin erfiðu meiðsl Samuels Etoo sem hingað til hefur verið ein aðalmarkamaskína Barcelona liðsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2006 | 21:55
Stjörnuhrap
Vefsíðan ordid.blog.is fór mikin í upphafi en hefur smátt og smátt verið að deyja út. Skúbb og tvípunktur var ekki sjaldgæf sjón á síðunni en nú virðist sem mesti vindurinn sé úr hjá aðstandendum.
Einhverjir hafa viljað bendla framkvæmdarlega forstöðumanninn Róbert Marshall við bloggið því Orðið þreyttist seint á að fjalla um málefni sjónvarpsstöðvarinnar sálugu. Þegar Bobby Marshall, eins og hann er gjarnan nefndur, hætti var eins og skrúfað hefði verið fyrir kranann og er orðið ansi langt um liðið síðan að síðast var sett inn færsla.
Þetta er þó vafalítið tilviljun ein og er skýringanna heldur að leita í því að þeir sem standi að baki Orðinu hafi komist í ágætis vinnu og hafi því ekki lengur tíma til að sinna slúðrinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi