Leita í fréttum mbl.is

Að bera í bakkafullan lækinn

Í færslu hér fyrir neðan má sjá að Guðmundur Jónsson telur málefni Byrgisins vera pólitístk frá upphafi til enda. Guðmundur ætti að sjá sóma sinn í því að taka örlögum sínum af æðruleysi. Af einhverjum ástæðum telur Ríkisendurskoðun að hætta eigi öllum styrkveitingum handa honum og að Samhjálp hafi verið fengin umsjón yfir starfsseminni.


mbl.is Stjórnarformaður Byrgisins segist fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kompás hlýtur uppreisn æru

Fréttaskýringaþátturinn Kompás hlýtur að varpa öndinni léttar eftir að skýrsla um fjármál Byrgisins var birt í dag. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra,  tilkynnti jafnframt að öllum styrkveitingum til meðferðastofnunnar hefði verið hætt.
Ekki verður annað sagt en að skýrslan dragi upp dekkri mynd af rekstri Guðmundar Jónssonar en Kompás gerði nokkri sinni á sínum tíma. Forstöðumaðurinn gerði sig sekan um alvarlegt misferli með opinbert fé og notfærði sér stöðu sína sem guðsmaður í baráttunni gegn fíkniefnadjöflinum til að slá ryki í augu almennings þegar hann reyndi að klóra sig út úr vandræðum sínum í spjallþáttum á borð við Kastljós.
Kompás-menn fóru fram með mjög viðkvæmt mál og drógu fram í kastljósið atriði sem fáir fjölmiðlar hefðu þorað. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson, stjórnendur fréttaþáttarins, þorðu þegar aðrir þögðu en ljóst má vera að heilbrigðisyfirvöld hafa gert sig seka um algjört eftirlitsleysi gagnvart málefnum Byrgisins. Magnús Stefánsson verður sjálfur að axla ábyrgð sem æðsti yfirmaður en má ekki finna blóruböggla neðar í virðingarstiganum.
Guðmundur Jónsson hefur grafið sér djúpa gröf og svívirt mörg af helstu boðorðum kristinnar trúar sem hann hefur notfært sér í starfi sín sem meðferðarfulltrúi. Hann getur ekki falið sig á bakvið það að hafa reynti að vinna stofnun sinni gagn með framferði sínu heldur hefur eigingirnin gripið öll völd.
mbl.is Styrkjum til Byrgisins hætt og málinu vísað til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blásið til sóknar hjá SME

Samkvæmt bloggsíðu Péturs Gunnarssonar hefur Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri DV, ráðið frænda sinn Guðmund Pálsson úr Baggalútshernum til að stjórna menningarsíðum blaðsins. Sigurjón, betur þekktur sem SME, hefur nú gefið út tvö eintök af "nýju" DV og var síðasta blað ólíkt betra en það fyrsta.  
Reyndar vakti athygli að Paul McCartney var sagður á leiðinni til landsins en eftir því sem síðuskrifari kemst næst þá er þetta jafn nálægur draumur og U2 haldi tónleika í Egilshöll...ekkert skyldi hins vegar útiloka.

Kosningarnar hefjast fyrir alvöru

Þingið kemur saman á mánudag eftir (langt) jólafrí. Þingmennirnir hafa verið á fleygiferð um kjördæmin við að kynna sjálfan sig, áherslumálin og ekki síst flokkinn sinn. Þingið núna verður eflaust með skrautlegra móti enda af nógu að taka, stjórnarandstaðan vill ekki selja RÚV, innflytjendamálin verða ofarlega á baugi og má reikna með heitum umræðum þegar þingmenn Frjálslyndra stíga í pontu (kosningaþingið byrjar reyndar ekkert sérstaklega vel fyrir þá þar sem Margrét Sverrisdóttir biðlaði nýlega til fjölmiðla að þeir skoðuðu ásakanir frá aðilum Nýs Afls á Útvarpi Sögu).
Ríkisútvarpið verður mikið hitamál enda sýnist sitt hverjum um hvort selja eigi þessa ríkisstofnun. Ríkisstjórnin virðist sannfærð um að láta reyna á þetta en stjórnarandstaðan getur ekki hugsað sér á sjá eftir þessari "menningarstofnun". Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður því áberandi enda eflaust erfitt fyrir menningarmálaráðherrann að mæla þessu bót með sannfærandi hætti.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður í sunnudagsviðtali við Morgunblaðið en formanninum er nokkur vandi á höndum. Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa sameinast um andstöðuna gegn aðild að Evrópusambandinu og eini haukurinn í horninu þar er Framsóknarflokkurinn sem Samfylkingin vill að hverfi.
Pétur Gunnarsson benti réttilega á í Kastljósi föstudagsins að oftast snúast kosningar ekki um einstök mál heldur hverjum þjóðin treystir best til að stýra þjóðarskútunni sem hefur siglt lygnan sjó að undanförnu.

Innflytjendamálin koma þó til með að vera ofarlega á baugi auk stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar (sem engin vill reyndar viðurkenna). Stækkun Alcan ratar eflaust alla leið inná Austurvöll, álver í Helguvík og svona mætti lengi telja. Steingrími J. Sigfússyni er eflaust farið að klæja í puttana en hann er í vanda staddur í eigin flokki eftir að varaformaðurinn gerði sig sekan um vandræðalega lélegan brandara Til gamans má geta að landsliðsþjálfarar í Englandi hafa verið reknir fyrir minna og nægir þar að minnast örlaga Glenn Hoddle.

Þegar öllu er á botninn hvolft verður þingið umfram allt eldfimmt og hálfgerð púðurtunna enda virðist hver höndin uppá móti hvor annarri.


mbl.is Vorþing hefst á mánudag með umræðum um RÚV ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðmennirnir hneyksla

Á blogginu hafa netverjar kosið að senda auðmönnum landsins tóninn eftir að Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings í London, ákvað að bjóða Duran Duran í partý hjá sér. Reyndar fengu Simon Le Bon og félagar þrjátíu og fimm milljónir fyrir að láta sjá sig með hljóðfærin sín og hituðu upp fyrir íslenska tónlistarmenn á borð við Björgvin Halldórsson, Regínu Ósk og Eyjólf Kristjánsson.
Sumir segja þetta vera siðferðislaust af auðmönnunum og að þeir ættu ekki að vera nota launin sín í að halda svona veislur. Ég man vel eftir því þegar Þorvaldur Guðmundsson í Síld & Fisk safnaði listaverkum og fjölmiðlar landsins höfðu fátt við það athuga sem og almenningur. Var Þorvaldur ekki að berast á eins og ´80 kynslóðin gerir nú?
Merkilegt hversu erfitt bessevissarar þjóðarinnar eiga erfitt með að sætta sig við það að hér ríkir kapítalískt hagkerfi þar sem sumir verða ríkari en aðrir.


Snillingurinn Depp

Johnny Depp gerir kvikmynd um Alexander Litvinenko. Varla verður hægt að bíða eftir þessari mynd. Depp ætlar að framleiða myndina og leika aðalhlutverkið en fátt getur verið eins spennandi og spillt stjórnvöld í Kreml, njósnarar á hverju strái og samsæri í hverju horni.
Athyglisvert verður að sjá hvern Depp fær til að leika aðalhlutverkið, væntanlega kemur Tim Burton ekki til greina þótt það væri efa forvitnilegt að sjá hvernig hinn sérlundaði leikstjóri myndi takast á við spennumynd af gamla skólanum. Gore Verbinski hefur starfað með Depp í sjóræningjamyndunum þremur og kemst á listann hjá Depp.
mbl.is Johnny Depp framleiðir mynd um dauða Litvinenkós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn stríðsherrann

Tony Blair er ein mestu vonbrigði stjórnmálasögunnar. Þessi stjórnmálamaður leit vel út þegar hann tók við breska veldinu af John Mayjor og íhaldsflokknum árið 1997. Þá ætlaði Blair að rífa þetta forna heimsveldi uppúr öskustónni og fékk til liðs við sig poppara í þeim erindagjörðum að gera landið aftur "hipp og kúl". Herbragðið heppnaðist fullkomlega og allt í einu vildi heimsbyggðin vera eins og tjallinn.
Í dag eru fáir í tónlistarheiminum sem vilja láta spyrða sig við Blair og stuðning hans við herforingja vestursins, George W. Bush. Tony Blair hefur misst sjónar af því sem hann upphaflega var og verður því miður minnnst fyrir að vera skósveinn W. Ágætis mynd af hinum "original" Blair má sjá í kvikmyndinni The Queen sem nýlega fékk tíu tilnefningar til Bafta-verðlauna. 
Blair hefur goldið fyrir afstöðu sína til Íraksstríðsins og leitt þjóð sína útí óvinnanlegt stríð (Hvernig dettur þessum tveimur mönnum eiginlega í hug að hægt sé að hafa sigur gegn hryðjuverkum?) Fyrir hvern og einn öfgamann sem fellur sprettur annar upp úr frjóum jarðvegi í Mið- Austurlöndum. Hatrið gegn vestrinu eykst með hverjum degi og nú þegar bæði Bush og Blair hafa tilkynnt um auka við heraflann og styrkja varnir landanna er ljóst að baráttan á dalnum á bara eftir að harðna.
Blair geldur fyrir stríðsrekstur sinn með starfi sínu og því verður spennandi að sjá hvort Bretar kjósa að halda áfram baráttunni gegn hryðjuverkum eða frið á öllum vígstöðvum. 


mbl.is Blair: Meira fé veitt til hernaðarmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogg eru fjölmiðll úrskurðar hæstiréttur Bandaríkjanna

Blogg hafa verið úrskurðuðuð sem fjölmiðill af hæstarétti Bandaríkjanna og mega því fylgjast með réttarhöldum yfir Lewis Libby, fyrrum aðstoðarmanni Dick Cheney, varaforseta landsins. Fulltrúum bloggsins verður boðið fjögur sæti meðal heimspressunnar og má því endanlega segja að bloggið hafi fengið viðurkenning í mekka fjölmiðlanna, Bandaríkjunum.
Nú verður sko heldur betur kátt í höllinni hjá bloggfréttariturum Íslands sem lengi hafa haldið því fram að þeir séu fullgildir meðlimir í fréttaheiminum. Hvað skyldu til að mynda Steingrímur Sævarr eða Ómar R. Valdimarsson segja um þetta? Þegar stórt er spurt... 

Hluti af okkar samfélagi

Einu sinni var því fleygt fram að hluti af því að vera Íslendingur væri að hafa farið á sjó, byggt sér hús og eignast jeppa. Nú fer enginn lengur á sjó, húsin eru byggð af útlendingum en jepparnir standa eftir í þessari ágætu jöfnu um þjóðernið.
Hluti af því að vera Íslendingur í dag er hins vegar að hafa lent í kennaraverkfalli. Vorið 1999 geisaði kennaraverkfallið langa hjá framhaldsskólakennerum og ég bjóst svo sannarlega við því að þurfa ekkert að fara í Flensborg þá önnina. Sex vikur og samnemendur mínir drukku bjór í húsi Alþýðubandalagsins í Hafnafirði. Fyrstu vikurnar fór ég samviskusamlega á bókasafnið og lærði...já, einu sinni var ég nörd (og er það enn). Gafst fljótlega uppá því og fór á Súfistan til að reykja í laumi, sígarettur frá öðrum. Með stolti gat ég þó sagt að ég var Íslendingur enda hafði ég þá bókað mig í vinnu hjá Höfninni í Hafnafirði um sumarið sem er það næsta sem ég hef komist sjómennsku á mínu lífi - ef undanskildar eru sjóferðirnar með afa á Sómabátnum Snarpi í barnæsku.

Kennaraverkföll á Íslandi eru jafn stór hluti af íslensku samfélagi og mótmæli hjá Frökkum, bjórdrykkja hjá Dönum og lélegur húmor Svía eða Norðmanna. Engum þarf því að koma á óvart þó að blessaðir kennararnir fari einu sinni og einu sinni í verkfall enda hefur þetta ágæta þjóðfélag aldrei borið virðingu fyrir þessari stétt sem er þó ábyrg fyrir uppeldi barna okkar að stóru leyti.


mbl.is Kennarar krefjast leiðréttingar á launum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peter og New Line í stríð...aftur

Bil Shaye lýsti þessu yfir í viðtali við Sci Fi-kvikmyndaþáttinn og sakaði Peter Jackson um óheillindi, græðgi og valdníðslu. New Line Cinema á réttinn á bók J.R.R Tolkien en Jacko hefur sagt í viðtölum að þetta sé draumaverkefnið hans.
Fáir eru eflaust betur til þess fallnir að leikstýra Hobbitanum og Peter Jackson. Aðdáendur hans um allan heim verða vafalítið ekki sáttir við þessar fréttir og undirbúa að öllum líkindum tölvupóstsendingar eins og síðast þegar kastaðist í kekki milli nýsjálenska leikstjórans og New Line Cinema og fengu það í gegn að stríðsaðilar sömdu um vopnahlé. Erfitt verður að sjá hver ætti að taka við þessu af Jackson en honum verður nokkur vandi á höndum þar sem nafn Peter Jackson er orðið samtengt Hringadrottinssögu, Föruneyti hringsins og Bilbo Baggins.
mbl.is Jackson leikstýrir ekki Hobbitanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Freyr Gígja Gunnarsson
Blaðamaður, golfari og sjúklegur aðdáandi enska knattspyrnuliðsins Liverpool. Umfram allt húsbóndi á Hjarðarhaga 46 þar sem húsfreyjan Júlía Margrét ræður ríkjum.

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband