20.11.2006 | 22:46
Tæknileg mistök
Mál Árna Johnsen hefur vakið hörð og sterk viðbrögð. Sumir vilja ganga svo langt að sunnlendinga
hafi skort siðferðisstyrk til að skilja að "vini" og hæfa stjórnmálamenn. Árni sýndi síðan af sér fáranlegan dómgreindarskort og sagði afbrot sín vera "tæknileg mistök". Þingmaðurinn fyrrverandi var reyndar ekki sá eini í síðustu viku sem talaði um tæknileg mistök; Ísrael-stjórn lýsti því yfir að árásir þeirra á íbúðarþorp hefðu verið tæknileg mistök.
Árni hefur einhver tromp á hendi sem gerir það að verkum að flokksmenn hans hafa ekki töggur í sér að skamma hann á opinberum vettvangi heldur láta ungliðahreyfinguna gera það.
Spekingarnir í heitu pottunum telja þjóðina vera á góðri leið með að fara til fjandans. Uppselt varð á örskotsstundu á tónleika Magna og Rock Star-vina hans. Eitthvað erfiðlega gekk hins vegar að selja á Björk Guðmundsdóttur og félaga hennar í Sykurmolunum. Við veiðum hvali eins og ekkert sé eðlilegra, Danir gruna okkur um skítuga viðskiptahætti og svona mætti lengi telja. Loksins, loksins, segir einhver þegar stjórnmálaflokkarnir opna bókhaldið sitt en svo lengi sem það sé með ákveðnum skilyrðum. Verðandi pólitíkusar eyða milljónum til að komast á þing og engin spyr hvaðan þær séu komnar. Ungu mennirnir segja allt á yfirdráttarheimild og hverjir eru það sem liggja undir grun hjá baunverjanum; gott ef það eru ekki bara KB Banki og Landsbankinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 22:26
Eddan: Af hverju Mýrin?
Stóra kvöldið hjá íslensku sjónvarps-og kvikmyndahátíðinni var á sunnudaginn þegar sjálf Eddan var afhent. Kvöldið sjálft telst umdeilt og enn umdeildara að herlegheitin skuli vera sýnd í beinni útsendingu hjá RÚV. Annars er þó varla hægt að kvarta, á Nordica Hotel voru þeir staddir sem sjá alþýðunni fyrir vinsælli afþreyingu. Og sérhvert mannsbarn hefur skoðanir á því sem er framleitt og sýnt í íslenskum kvikmyndahúsum og sjónvarpi.
Þau Ragnhildur Steinunn og Pétur Jóhann fengu það erfiða hlutskipti að vera kynnar og komust ágætlega frá sínu hlutskipti. Varla var hægt að ætlast til þess að þau færu í spor David Letterman, Stephen Fry eða Billy Crystal. Klúðrið var hins vegar að fá Bubba Morthens og unnustu hans til að segja ómerkilegan og lélegan brandara sem fékk ófáa samlanda þeirra til að svitna undir höndum og á efri vörinni.
Baltasars-klíkan fór heim með öll mikilvægustu verðlaunin. Besta myndin, besti leikur í aðal-og aukahlutverki, leikstjóri ársins og verðlaun fyrir bestu tónlistina fékk Mugison fyrir bæði Mýrina og A little Trip to Heaven. Mundos hefur sterkar skoðanir á þessu og ef Ísland væri alvöru kvikmyndaþjóð hefði Börn hlotið öll verðlaun. Margir eru hins vegar sammála þessu vali, Mýrin er ein vinsælasta mynd sem gerð hefur verið en á henni eru allt of margar brotalamir. Hún er gerð eftir besta krimma Arnaldar Indriðasonar en fátt er reyfarakennt við kvikmyndina. Tónlistin er í engu samræmi við atburðarrásina og handritið er skelþunnt. Myndarinnar verður fyrst og fremst minnst fyrir stórleik Theódórs Júlíussonar í hlutverki Elliða, þrjóts sem þegar hefur verið valinn sá besti í íslenskri kvikmyndasögu.
Í Hollywood og reyndar Bretlandi þar sem Óskarinn og Bafta eru afhent hefði varla komið til greina að kvikmynd sem ekki væri tilnefnd fyrir handrit hefði haft sigur. Mótrökin eru þau að Mýrin er vinsælust. Til gamans má geta að þær kvikmyndir sem voru tilnefndar í fyrra til Óskarsverðlauna fengu allar til samans minni aðsókn heldur en vinsælasta kvikmyndin það árið.
Án vafa er Baltasar hæfileikaríkur leikstjóri og samkvæmt Fréttablaði mánudagsins er hann að skoða bandarísk handrit þannig að útrásin er á næsta leyti hjá leikstjóranum. Honum hefur hins vegar ekki tekist að sannfæra Mundos um ágæti sitt sem "stórkostlegur" leikstjóri. Handritin að bæði A little trip og Mýrinni voru bæði meingölluð og kannski væri best fyrir Baltasar að einbeita sér að leikstjórninni en láta skrif algjörlega í friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 19:24
Íslenska komin í bíó
Samtök kvikmyndahúsaeiganda ætla að heiðra Dag íslenskra tungu með því að þýða alla kvikmyndatitla yfir á hið ylhýra. Þetta er náttúrlega löngu orðið tímabært og þá sérstaklega þegar kemur að evrópskum kvikmyndum sem oftar en ekki fá ensk nöfn í stað íslenskra. Nægir þar að nefna Der Untergang en hún var kölluð Downfall og Mótorhjóladagbækurnar hans Walter Salles sem þýdd var frá spænsku yfir á ensku. Um allt þetta má lesa hér en menntamálaráðherrann, tískudrottning Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skrifaði bréf til kvikmyndahúsaeiganda og beindi því til þeirra að þeir þýddu alla titla...sem er sjálfsögð þjónusta við Íslendinga því fátt er jafn gaman og velta fyrir sér hvort hin eða þessi útfærsla sé betri en einhver önnur.
Mundos er mikill íslenskumaður og skilur ekki hvers vegna titlarnir eru ekki þýddir yfir á móðurmálið eins og tíðkaðist hér áður fyrr og í öðrum nágrannalöndum. Þá var hægt að sjá myndir á borð við Á tæpasta vaði(Die Hard),Beint á Ská(Naked Gun) eða Tveir á Toppnum (Leathal Weapon).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 19:04
Danir liggja í því...

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 23:56
Nú er þetta loksins viðurkenndur sjúkdómur
Mike Newell þarf að mæta fyrir nefnd hjá liði sínu Luton Town. Svo virðist sem þessi góðlátlegi þjálfari fyrstu deildar liðsins þjáist af sífellt sjaldgæfari sjúkdómi, svokallaðri "karlrembu" eins og lesa má um í þessari frétt.
Mundos hefur megnustu óbeit á karlrembum og mönnum sem halda að konur séu eitthvað verri verur en þeir sjálfir. Nokkur merki er þó að finna um karlrembu í kristinni trú en merkilegt nokk, þá eru múslimar hliðhollir kvenréttindum samkvæmt Kóraninum þótt einhver ákvæði hafi verið mistúlkuð af harðlínumönnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 23:48
Og nú eru Íranir orðnir vinaþjóð
Óhætt er hægt að segja að Tony Blair og George W. Bush séu með allt niður um sig hvað Íraks-stríðið varðar. Bush og Repúblikanar töpuðu bæði fulltrúardeildinni og Öldungardeildinni til Demókrata sem strax eru farnir að láta til skara skríða ef marka má fréttir frá Washington. Ætla að draga herliðið til baka á næstu fjórum til sex mánuðum.
Blair lýsti því síðan yfir í stefnuræðu sinni um utanríkismál að Bretar myndu haga seglum eftir vindi(kemur á óvart) í málefnum Íraks og hvatti lönd á borð við Sýrland og Íran að láta sér málefni Íraks varða. Menn skulu ekki gleyma því að Íranir eru hluti af öxulveldi hins illa og ekki er langt síðan að Bandamenn mótmæltu harðlega kjarnorkutilraunum landsins. Bush hefur ósjaldan lýst því yfir að Íran skjóti skjólhúsi yfir hryðjuverkamenn en nú þarf að fá þessa klerkastjórn til að miðla málum fyrir botni Mið-Austurlanda. Skjótt skipast veður í lofti í alþjóðamálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 23:38
Ekki heiglum hent að vera þjófur
Tveir menn hefðu vafalítið ratað í dagskrárliðinn Headlines hjá spjallþáttakónginum Jay Leno en vinnubrögð þeirra voru með eindæmum "heimskuleg" eins og lesa má um í þessari frétt. Sem betur fer fyrir Árna Johnsen þá sofnaði hann ekki á verðinum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og hafði annað sætið. Hins vegar var forvitnilegt að heyra í Geir H. Haarde þegar hann var inntur eftir því hvort Árni nyti stuðnings hjá flokksforystunni. Forsætisráðherrann var heldur stuttur í spunann, vissi ekki hvernig hann ætti að svara spurningum fréttakonunnar en bjargaði sér með stuðningsyfirlýsingu. Eflaust skemmir það ekki fyrir, eins og mörgum rekur eflaust í minni, að Árni sagðist langt frá því að vera eini þingmaðurinn sem beitti svona brögðum þegar mál hans komst í hámæli. Fleiri furðuðu sig á því þegar Árni fékk óvenju fljóta sakaruppgjöf, forsetinn var meira að segja ekki á landinu heldur skrifuðu gamlir flokksbræður undir skjalið. Þarf að segja meira?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 00:33
Þjófur á þing: Virkaði Russel Crowe-herbragðið?
Árni Johnsen er ókrýndur konungur helgarinnar. Á föstudeginum keypti hann heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu með stórri mynd af sjálfum sér og litlum myndum af stuðningsmönnum sínum. Viti menn; Russell Crowe studdi þingmanninn.
Vafalítið hefði Crowe stutt Árna til þings því þeir félagar eiga sitthvað sameiginlegt, hafa til dæmis báðir látið hnefana tala, leikarinn lét meðal annars síma fjúka í andlitið á hótelstarfsmann í New York en Árni lamdi söngvara á þjóðhátíð...eða svo segir Bubbi. Eftir úrslit helgarinnar mætti vænta að fleiri frambjóðendur og þingflokkar settu þekktar Hollywood-stjörnur á auglýsingar hjá sér því herbragðiði virðist hafa gengið upp hjá Árna og félögum.
Árni náði sem sagt öruggu sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæminu. Var meir að segja á góðri leið með að skáka nafna sínum og fjármálaráðherranum Matthiesen sem sveik lit og skipti yfir í Suðurlandið þótt allir viti að rætur hans mun og hafa alltaf legið í Firðinum.
Þjóðleikhúsþjófurinn hefur á örfáum árum náð að sannfæra sveitunga sína um að hann sé betri maður eftir að hafa dvalist nokkra mánuði á Kvíabryggju. Vestmanneyingar er ekki lengi að gleyma einhverjum smáafglöpum og virðast ekki hafa fellt sig við það sem Guðjón Hjörleifsson- eða Gaui Bæjó eins og hann er víst jafnan kallaður heima fyrir- hafði uppá að bjóða. ´
Íslendingar virðast vera fljótir að gleyma eða að fyrirgefa og líta margir hverjir upp til þeirra sem hafa brotið lögin en snúið aftur og brotist til metorða. Gleymum ekki Jóni Hreggviðssyni, sem mátti dúsa á Bessastöðum fyrir að hafa stolið snærisspotta. Björgúlfur Guðmundsson er ef til vill besta dæmið; fáum virðist vera í nöp við milljarðararmæringin þrátt fyrir að Bretar kalli kappann "an old fraudster" í sambandi við tilboð hans og Eggerts í West Ham.
Annar pólitíkus ætti kannski að íhuga starfsferil sem glæpamaður en Ingibjörg Sólrún virðist hafa misst tökin á flokknum sínum. Össur Skarphéðinsson er maðurinn á bak við tjöldin og hefur náð því sem Bó Hall varð hvað þekktastur fyrir: Ekkert Show fyrr en Ö segir Gó. Ingibjörg, líkt og Árni, myndi vafalítið ná miklum vinsældum ef þingkonan sýndi fram á að hún væri jafn spillt og allir hinir karlfuskarnir.
Flestir hægrisinnuðu bloggararnir í dag eru sammála um að ef Samfylkingin nær ekki afgerandi stöðu sem næst-stærsti flokkur landsins mun Ingibjörg segja af sér sem formaður og þar með er pólitískum ferli hennar lokið. Mundos vildi óska þess að svo yrði en ef flokkurinn nær ekki að skáka sjálfstæðisflokknum mun Ingibjörg, líkt og aðrir pólitíkusar og lélegir knattspyrnustjórar, kenna einhverjum allt öðrum en sjálfri sér um tapið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 21:19
Af rasisma og ekki rasisma
Rökin "þeir vinna bara þá vinnu sem Íslendingar vilja ekki vinna," eru ósanngjörn. Hafa ber í huga að útlendingar sem sest flytjast hingað og setjast hér að frjóvga menningu okkar. Nú þegar eru dagblöð gefin út pólsku, bankar bjóða uppá þjónustu á fleiri en einu tungumáli og fjölmiðlar taka upp hanskann fyrir erlendum verkamönnum sem látnir eru dúsa í lélegu húsnæði á vegum illgjarnra vinnuveitanda.
Ísendingar hafa hins vegar ekki ótakmarkað pláss og standa frammi fyrir sama vandamáli og aðrar þjóðir gerðu fyrir nokkrum tugi ára þegar flóttafólk frá austurblokkinni þyrptist vestur í von um betra líf. Fólk frá Suður-Ameríku sem gat ekki hugsað sér að lifa undir stjórn einræðisherra(kaldhæðið en satt; vestrænar þjóðir studdu oft á tíðum þessa menn) og ekki síst innflytjendur frá Afríku, úr gömlu nýlenduveldum herraþjóðanna.
Nú standa þessar þjóðir frammi fyrir þeim vanda að hafa ekki hlúð eða ekki haft tækifæri til að sinna fólkinu, veita því mannsæmandi tækifæri. Uppreisnin í úthverfum Parísar voru engin tilviljun og væntanlega prísa Danir sig sælan að hafa ekki lent í hinu sama. Við á Íslandi þurfum hins vegar ekki að hafa áhyggjur...strax.
Eftir nokkra áratugi gæti hins vegar slegið í brýnu milli útlendinga og Íslendnga en Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa áttað sig á þessum vanda og hefur nú tryggt að Pólverjar eigi sinn fulltrúa á Alþingi.
Umræðan um útlendinga er af hinu góða en hún kom hins vegar frá röngu fólki með röng skilaboð og það var hálf kjánalegt að sjá þá Eirík Bergman og Jón Magnússon karpa um það hvort stjórnmálafræðingurinn væri hluti af Samfylkingunni eða ekki. Eiríkur þráttaði fyrir það þótt allir vissu það og Jón sagðist ekki vera rasisti þrátt fyrir að hafa skrifað sem héti Ísland fyri Íslendinga...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.11.2006 | 23:12
Fyrsti dómuinn um James Bond
Bresku götublöðin sendu öll njósnara á sérstaka forsýningu nýjustu Bond-myndarinnar, Casino Royal. Þau voru hrifinn og hófu hinn "hataða" Daniel Craig svo mikið upp til skýjanna að hinn skoski Sean Connery má fara að óttast um krúnuna sem besti Bond-inn. Hægt er að lesa allt um málið á þessari yfirlitssíðu BBC.
Fréttablaðið virðist fara sömu leið og bresku götublöðin því Þórarinn Baldur Þórarinsson, betur þekktur sem "Bjargvætturinn á Bessastöðum", birti í gær stuttan dóm um myndina og er hægt að lesa hann hér.
Þórarinn fór reyndar mikinn í pistli sínum í Fréttablaðinu þar sem hann réðst á saklaust grey sem enn hafði trú á mannkyninu og taldi það geta snúið frá villu vegar, látið af syndsamlegu líferni sínu, hefði jafnvel lært eitthvað af bræðrum sínum í Sódómu og Gomorru. Sá aumingjans maður átti sín ekki viðreisnarvon þegar blaðamaðurinn vitnaði í bölsýnismanninn Nietzhce og húsdýr í gæludýragarði. Reyndar telur undirritaður nokkuð víst að hvorki kindurnar eða kýrnar í Húsdýragarðinum ættu roð í hrafninn ef fram færi spurningakeppni enda hafði Óðinn ekki Gimbu og Búkollu sér við hlið heldur þá Huginn og Muninn. Ætli einkvæni sé gáfumerki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi