Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
12.12.2006 | 01:14
Annan kallar eftir Truman hefðinni
Kofi Annan flutti lokaávarp sitt sem aðalritari Sameinuðu Þjóðanna. Annan ræddi stöðu heimsmála og ekki síst mikilvægt hlutverk Bandaríkjanna sem verndara mannréttinda og frelsis. Bandaríkin væru valdamesta land heims og því fylgdi mikil ábyrgð.
Varla er annað hægt en að lesa mikil vonbrigði úr orðum Annan með frammistöðu Bandaríkjamanna undir stjórn George Bush þótt aðalritarinn fari vissulega fínt í sakirnar. Orð hans má þó túlka á þann veg að Bandaríkin hafi misnotað vald sitt og nýtt það til vafasamra aðgerða á borð við innrásina í Írak en Annan lýsti því yfir við fréttastofu BBC að stríðið þar í landi væru mistök.
Hann beindi orðum sínum aldrei beint að Bush forseta sem hefur harðlega gagnrýnt Sameinuðu Þjóðirnar fyrir "linkind" sína gagnvart "öxulveldum" hins illa en biðlaði til framtíðarleiðtoga stórveldisins að þeir litu til fyrrum forseta landsins, Harry S. truman, þegar kæmi að afstöðu þeirra til SÞ. Truman var mikill stuðningsmaður stofnunar SÞ og Annan vísaði oft og mörgum sinnum til orða og heimspeki forsetans sáluga.
Annan hefur verið í forsvari fyrir Sameinuðu þjóðirnar frá árinu 1997 og hlaut friðarverðlaun Nóbels ásamt SÞ árið 1997. Hann þurfti seint á valdatíma sínum að glíma við spillingavandamál varðandi son sinn og hafa andstæðingar hans beitt þeim ásökunum óspart gegn honum. Hvort sagan muni dæma hann á jákvæðum nótum kemur í ljós en Annan skilur eftir sig óleystar borgarastyrjaldir í Súdan og Írak. Hægt er að lesa ræðu Annan í heild sinni hér og viðbrögð blaðamanna við henni hér. Hin suður-kóreski arftaki, Ban Ki-Moon mun síðan taka við af honum á næstu misserum og er hægt að fræðast um hann í þessari snaggaralegu úttekt breska ríkissjónvarpsin frá þessum tengli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 20:27
Eggið spælir Pardew
Eggert Magnússon hefur látið til sín taka, sýndi klærnar í dag og lét Alan Pardew, framkvæmdarstjóra West Ham, taka hatt sinn og staf eftir brösótt gengi að undanförnu. Væntanlega hefur fjögur núll tap fyrir Boltonum helgina verið dropinn sem fyllti mælinn. Nú bíða Íslendingar spenntir eftir því hver það verði sem Eggert fái í starfið en væntanlega er stjórnarformaðurinn ekki svo heimskur að ráða Guðjón Þórðarson. Hann gæti þess vegna ráðið sér lífvörð strax og látið lítið fyrir sér fara þegar stuðningsmenn liðsins leita að honum logandi ljósi, líkt og Eyjólfur grái gerði hér forðum að Gísla Súrssyni.
Mundos líst vel á spár veðbanka sem vilja meina að Alan Curbishley, fyrrum stjóri hins sökkvandi liðs Charlton, sé líklegastur. Eggert gaf Pardew tvær vikur í starfi og ljóst að allt er í heiminum hverfult því ekki er langt síðan að Pardew og Eggert gengu saman í hönd í hönd á Upton Park og allt lék í lyndi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 20:18
Fátækt er staðreynd en ekki deiluefni
Merkilegt hversu vandræðalegir stjórnmálamenn í ríkisstjórn Íslands verða þegar rætt er um fátækt á Íslandi. Alltaf eins og þetta komi þeim í opna skjöldu: "Hva?Fátækt á Íslandi? Nei, nei," er oft viðkvæðið.
Fátækt á Íslandi er staðreynd en ekki deiluefni. Fjöldi þeirra sem lifa undir fátæktramörkum er ekki eitthvað sem ráðamenn þjóðarinnar eiga að vera rífast um. Fjölmiðlar geta að hluta til tekið einhverja sneið til sín, þeir hafa verið hugfangnir af mönnum á borð við Björgólf Thor og Jón Ásgeir sem berast á, lifa glæsilegu lífi og kaupa fyrirtæki og eignir um allan heim. Þeir hafa sýnt fólkinu sem þiggur ölmusu hjá Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun Ríkisins lítin áhuga. DV mátti eiga það, blaðið beindi ótt og títt sjónum að fólki sem hafði orðið undir þjóðfélaginu, opnaði augu fólks fyrir heimi sem að öðrum kosti var lokaður.
Íslendingum hlýtur að þykja vandræðalegt að hér skuli þrífast fátækt miðað við það lífsgæðarkapphlaup sem hefur verið í gangi á landinu bláa. Samkvæmt félagslegum Darwinismi yrði þetta hins vegar kallaður "nauðsynlegur fórnarkostnaður." Einhverjum þarf að fórna til að aðrir njóti lífsgæðanna til fullnustu.
Þetta sést kannski best á því hvernig íþróttavörur er markaðsettar með stærstu stjörnum heimsins, vörurnar eru framleiddar í fátækum heimshlutum þar sem vinnuafl er ódýrt og jafnvel er stunduð barnaþrælkun. Með því sparast umtalsverðar fjárhæðir sem hægt er að nýta til rándýrra auglýsingagerðar og útborgunar á gróða til hluthafa.
Í kapítalísku þjóðfélagi er fátækt hluti af breytunni. Þetta er kerfi sem forfeður okkar og við sjálf kusum yfir samfélagið með þá von í hjarta að við sjálf myndum aldrei tilheyra þessum hópi. Til að útrýma fátækt þarf að umbylta kapítalismanum í hugarheimi þjóðfélagsþegnanna og réttið upp hönd sem viljið láta af lífsgæðum ykkar? Engin? Hélt ekki...
Þótt fátækt sé óásættanleg þá er fátækt hluti af því kerfi sem þeir sem njóta lífsgæðanna hafa kosið yfir okkur, skipulag þeirra sem seldu Mammón sálu sína og voru reiðubúnir til að fórna náunganum fyrir auðævi sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2006 | 19:27
Merkikerti bloggheimsins
Tvær vefsíður eru komnar í hár saman; blad.is og bloggsíða Steingríms Sævarrs Ólafssonar. Deilurnar má rekja til þess að Steingrímur birti færslu á síðu sinni um "lélegar" úttektir Ísafoldar á hinum og þessum fjölmiðlafyrirtækjum sem lagt hafa upp lauparnar. Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar, svaraði að bragði og útskýrði fyrir lesendum sinnar síðu að aðstoðarmaðurinn fyrrverandi hefði verið einn þeirra sem hefði nánast sett tímaritaútgáfuna Fróða á hausinn.
Nú eru þessar síður farnar að rífast eins og litli krakkar í sandkassa um hver þeirra sé fyrst með fréttina. Eitt átta þessir aðilar sig ekki á að þær eru netsíður og því er trúverðugleiki þeirra ekki mjög mikill enda hefur það sýnt sig að þeir sem skrifa á netið gera sig oft seka um rangfærslur og tómt bull. Er undirritaður engin undantekning á því.
Höfðingjarnir tveir deila um hver giski "réttast" á örlög Sigurjóns M. Egilssonar, fyrrum ritstjóra Blaðsins. Steingrímur segir Sigurjón vera á leiðinni aftur uppí Skaftahlíð til að taka við DV en Reynir Traustason heldur því fram að ritstjórinn sé að fara ritstýra nýju blaði, byggt á gömlum grunni. Þótt óneitanlega sé spennandi að fylgjast með þessari reyfarakenndu framvindu verður að hafa í huga að mjög líklegt sé að hlutirnir breytist hratt þar sem 365 eru annars vegar enda skemmst að minnast skyndilegrar lokunar NFS, lokunar DV og þannig mætti lengi telja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2006 | 18:43
Til hamingju Chile
Augusto Pinochet er allur. Þessi fyrrum einræðisherra Chile er talinn vera ábyrgur fyrir dauða þrjú þúsund manna, þeirra á meðal námsmenn og fulltrúar verkalýðsfélaga, á valdatíma sínum en þurfti aldrei að svara fyrir gjörðir sínar. Þótti of veikburða til að geta þolað réttarhöld. Pinochet er gott dæmi um valdníðslu Bandaríkjanna sem komu honum til valda eins og svo mörgum öðrum illmennum sögunnar en um andlátið má lesa hér.
Vert er að óska Chile-búum til hamingju með daginn því þarna er horfinn einhver ljótasti blettur á sögu þjóðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2006 | 19:55
Í landi Bond
Rauðu símaklefarnir eru hér enn þótt þeim fari vissulega fækkandi vegna tilkomu gsm-síma og tölvupósta. Leigubílarnir með þessu einstaka lagi eru enn við lýði og eru líklega jafn frægir og gulu bílarnir í New York. Ekki má gleyma Big Ben, Waterloo-brúnni yfir Thames-ánna, Buckingham-höllina, Covernt Garden, Piccadelly Circus, Traflagar-torginu að ógleymdum öllum þeim leikvöngum sem hýsa knattspyrnulið borgarinnar að ógleymdri þeirri staðreynd að London er ein fárra borga sem hefur verið þýdd yfir á hið ylhýra, Lundúnir.
Mundos fór hins vegar að sjá gamlan verndara bresku krúnunnar sem hefur verið að síðan 1962 þegar Sean Connery lék sjálfan James Bond í Dr.No. Mörgum þykir að engum hafi tekist jafn vel upp og Connery sem sló konur eins og harðfisk, nauðgaði þeim jafnvel en drap vonda náungann og allir voru sáttir enda hafði heiminum þá verið bjarað rétt fyrir horn. Nýr Bond hefur nú litið dagsins ljós og hann er fyrst og fremst mannlegur. Slær ekki konur heldur tælir þær í rúmið starfs síns vegna og þær eiga heldur auðvelt með að falla fyrir þessum hættulega manni sem vílar ekki fyrir sér að drepa eiginmann þeirra. Bond væri góður meðlimur í byltingu Mundos þótt vissulega myndi byltingaforinginn komi því þannig við að húsfreyjan fengi seint eða aldrei að hitta þennan mann.
Ráðning Daniel Craig þótti undarleg á sínum tíma og réðust aðdáendur leyniþjónustumannsins harkalega að Barböru Broccoli sem fékk framleiðsluréttinn í arf frá föður sínum og ræður því sem hún vill ráða. Craig var ljóshærður og ekkert sérstaklega smáfríður eins og forveri hans Pierce Brosnan. Þótt ef til vill minna á Timothy Dalton sem gróf James Bond nánast gröf sína á sínum tíma. Handritshöfundar slátra þessum yfirlýsingum með því að láta M grínast með hárlit Daniel Craig. "Þetta er kannski of flókið fyrir ljósku að skilja," segir hún.
Nýr James Bond gerir mistök, er hrokafullur og það kemur honum nánast um koll. Hann fellur fyrir konu sem seinna svíkur hann og gerir innrás í sendiráð, sprengir það í loft upp og er nánast rekinn fyrir vikið enda væru bresku blöðin ekki lengi að grafa upp misheppnaða aðgerð leyniþjónustunnar. Slíkur æðibunugangur líðst ekki innan MI6 þótt þeir Connery, Moore og Brosnan hefðu vissulega komist upp með slíkt athæfi. Bond á hins vegar nokkur tromp uppí erminni og stendur loks upp sem sigurvegari...hvað annað.
Casino Royal markar upphaf að nýrri byrjun hjá þessum fremsta útverði vestrænnar siðmenningar. Bond er maður sem hikar ekki eina einustu sekúndu. "Færðu aldrei samviskubit yfir þeim mönnum sem þú drepur," spyr Vesper Lynd þegar þau borða kvöldmat eftir æsispennandi kvöld. "Ég væri þá ekkert sérstaklega góður í mínu starfi," svarar Bond að bragði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Allt sem skiptir máli
- Fyrir austan tala þeir um...
- Vesturlandinu gerð skil
- Þetta er helst fyrir vestan
- Aðstoðarmaðurinn fyrrverandi
- Misjafnlega gott íslenskt slúður
- Með sunnudagskaffinu
- NFS...líka á netinu
- Morgunblaðið..á netinu
- Fyrir meinlokurnar
- Íslenskar kvikmyndafréttir
- Hin eina og sanna
- Handboltahetjan
- Eðlukóngurinn
- Allt um boltann
- Slúðrið frá Bretlandi
- Fréttaveita af bestu gerð
- Sigursælasta lið í heimi